Vegna fréttar Stöðvar 2 og Vísis sunnudaginn 17. febrúar sl.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 sunnudaginn 17. febrúar sl. var fjallað um birtingu á lánasögu einstaklinga hjá Creditinfo. Fréttin var einnig birt á vef Vísis sama dag.

Í fréttinni er rætt við Sævar Þór Jónsson lögmann sem segir að Creditinfo sé nýlega farið að birta lánasögu einstaklinga. Hann segir að lánasagan sé komin í stað vanskilaskrárinnar og telur vinnsluna ólögmæta. Þá segir Sævar að bankarnir fari þá leið að miðla til skráningar hjá Creditinfo upplýsingum um skuldastöðu einstaklinga m.a. upplýsingum um fyrndar kröfur. Þá má ráða af fréttinni að viðmælandi telji að skráningar á vanskilaskrá séu einnig rangar í þeim tilfellum sem kröfur fyrnast vegna ákvæða í lögum um gjaldþrotaskipti.

Að mati Creditinfo hefur ekki verið vandað til upplýsingaöflunar og úrvinnslu við framsetningu fréttarinnar, en rangt er farið með flest það sem viðkemur starfsemi félagsins. Ekki var leitað til Creditinfo við vinnslu fréttarinnar.

Creditinfo rekur ekki miðlægan grunn um lánasögu einstaklinga. Félagið hefur hins vegar í um áratug rekið svokallað skuldastöðukerfi en inn í það miðla rúmlega 30 lánveitendur sem starfa undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins, gögnum um núverandi skuldastöðu einstaklinga og lögaðila. Ekki er um að ræða gagnagrunn hjá Creditinfo um stöðu allra lána hjá viðkomandi lánveitendum heldur er staðan sótt í rauntíma hjá hverjum og einum lánveitanda þegar skuldastaðan er sótt á grundvelli upplýsts samþykkis einstaklings. Sótt skuldastaða geymir yfirlit yfir núverandi stöðu lána viðkomandi en ekki upplýsingar um lánasögu eins og haldið er fram í fréttinni. Upplýsingum um fyrndar kröfur er ekki miðlað á skuldastöðuyfirliti. Í tilfelli skuldastöðukerfisins er Creditinfo vinnsluaðili fyrir þá lánveitendur sem eru ábyrgðaraðilar þeirra upplýsinga sem miðlað er inn í kerfið.

Skv. lögum um neytendalán sem tóku gildi árið 2013 er lánveitendum skylt að framkvæma greiðslumat við lánveitingu ef fjárhæð lánssamnings er yfir ákveðinni fjárhæð. Reglugerð um lánshæfis-og greiðslumat kveður skýrt á um það hvaða upplýsinga beri að afla þegar greiðslumat er framkvæmt.

Meðal þeirra gagna sem lánveitanda ber að afla eru upplýsingar um skuldastöðu viðkomandi einstaklings. Það er því ljóst að lánveitendum ber að afla upplýsinga um núverandi skuldastöðu einstaklinga við gerð lánasamninga og er það hagræði fyrir lánveitendur og fyrir einstaklinga að geta sótt upplýsingarnar á einn stað í stað þess að sækja upplýsingarnar til margra aðila.

Varðandi afskráningar af vanskilaskrá er farið að starfsleyfi félagsins sem gefið er út af Persónuvernd. Fyrndar kröfur eru ekki birtar á vanskilaskrá eins og haldið er fram í fréttinni.

Skuldastöðukerfið kemur á engan hátt í stað vanskilaskrár, enda flest allir lánveitendur sem sækja stöðu á vanskilaskrá og/eða lánshæfismat til Creditinfo áður en lánasamningur er gerður, auk skuldastöðunnar þegar greiðslumat þarf að fara fram.

Creditinfo telur að birting fréttar sem staðhæfir að félagið brjóti lög og starfi með ólögmætum hætti, án nokkurs samráðs eða upplýsingaöflunar frá félaginu, geti ekki staðist vönduð vinnubrögð og rétta framsetningu frétta til almennings og mun skoða málið í ljósi þess.