Píeta samtökin njóta góðs af jólasöfnun starfsfólks Creditinfo

Píeta samtökin hafa fengið afhentar 1.368.150 krónur sem söfnuðust í árlegri góðgerðarviku starfsfólks Creditinfo. Söfnunarféð var afhent Píeta samtökunum miðvikudaginn 16. desember við starfsstöð samtakanna á Baldursgötu í Reykjavík. Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Píeta, tók við framlaginu fyrir hönd samtakanna.

Undanfarin ár hefur Creditinfo valið að senda ekki út jólakort, en leggja þess í stað starfsfólki fyrirtækisins lið við söfnun sem óskipt er látin renna til verðugs málefnis. Einhugur var um það meðal starfsfólks Creditinfo að styrkja Píeta samtökin að þessu sinni. Covid-19 hefur haft margvíslegar afleiðingar og vísbendingar eru um að hún kalli á aukinn stuðning við hópa í hættu vegna sjálfsvíga. Á þeim vettvangi vinna Píeta samtökin ómetanlegt starf.

„Það er afar ánægjulegt hversu mikilli velvild Píeta samtökin mæta hvarvetna í störfum sínum og við erum afar þakklát Creditinfo og starfsmannafélagi fyrirtækisins fyrir þennan ómetanlega stuðning. Í ár hefur aðsókn í þjónustu Píeta aukist mjög, eða rúmlega tvöfaldast, enda staðreynd að árið hefur reynst mörgum erfitt. Framlagið nýtist vel til að halda uppi þjónustunni, sem er gjaldfrjáls og opin öllum yfir 18 ára aldri“, segir Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Píeta samtakanna.

Farnar hafa verið margvíslegar leiðir við söfnunina síðustu ár, en að þessu sinni kom grunnurinn að framlaginu úr lukkuhjóli sem starfsmannafélag Creditinfo stóð fyrir og starfsmenn söfnuðu vinningum fyrir. Fjölmörg fyrirtæki lögðu söfnuninni lið og eru þeim færðar bestu þakkir fyrir þeirra framlag. Að venju lagði svo Creditinfo fram sem mótframlag jafnháa upphæð og safnaðist meðal starfsfólks.

„Góðgerðarvikan er orðin órjúfanlegur hluti aðventunnar og afar ánægjulegt að geta á þessum óvenjulegu tímum, þar sem mannamótum og söfnunarstarfi eru ákveðnar skorður settar, fært Píeta samtökunum þessar tæpu 1,4 milljónir króna. Þær nýtast vonandi vel í því mikilvæga starfi sem samtökin sinna“, segir Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo.

Á síðasta ári styrkti söfnunin Einstök börn um tæplega 1,4 milljónir króna og árið þar áður naut Kraftur, stuðningsfélag fyrir ungt fólk með krabbamein og aðstandendur þeirra, söfnunarinnar.

Við þökkum samfylgdina á árinu sem er að líða og óskum ykkur gleðilegrar hátíðar, friðar og farsældar á komandi ári.

Um Píeta samtökin

Píeta samtökin eru leiðandi forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða á Íslandi og styðja við aðstandendur. Samtökin voru stofnuð í apríl árið 2016, en hugmyndafræði þeirra á sinn uppruna hjá Pieta House á Írlandi. Þjónusta Píeta samtakanna er með öllu gjaldfrjáls og stendur til boða öllum þeim sem hafa náð átján ára aldri.