Skannaðir ársreikningar eru nú gjaldfrjálsir á þjónustuvef Creditinfo

Creditinfo hefur opnað fyrir gjaldfrjálsan aðgang að skönnuðum frumritum ársreikninga á vef sínum. Á þjónustuvef Creditinfo og í vefverslun á opnum vef geta almennir notendur jafnt sem áskrifendur nú sótt gjaldfrjálst skönnuð frumrit af ársreikningum.

Creditinfo hefur að geyma stærsta safn viðskiptaupplýsinga á Íslandi en á meðal þeirra eru upplýsingar úr ársreikningum íslenskra fyrirtækja allt aftur til ársins 1995. Ársreikningagrunnur Creditinfo hefur að geyma rúmlega 550.000 ársreikninga sem hægt er að sækja með fjölbreyttum hætti bæði á þjónustuvef Creditinfo og í gegnum vefþjónustu. Áskrifendum Creditinfo gefst jafnframt kostur á að vakta skil á ársreikningum án viðbótarkostnaðar með Fyrirtækjavakt Creditinfo.

Öllum er frjálst að sækja fjölbreyttar upplýsingar um stöðu fyrirtækja í gegnum vefverslun Creditinfo. Hægt er að sækja lánshæfismat fyrirtækja sem sýnir líkurnar á því að fyrirtæki fari í vanskil á næstu tólf mánuðum, ítarlegt yfirlit yfir endanlega eigendur fyrirtækja, upplýsingar um gildandi skráningu fyrirtækja og margt fleira. Áskrifendur Creditinfo geta síðan sótt enn fleiri upplýsingar til að taka markvissari ákvarðanir í viðskiptum.

„Það er okkur mikið fagnaðarefni að geta nú boðið skönnuð frumrit af ársreikningum gjaldfrjálst. Eftir lagabreytingar sem tóku gildi um áramót opnaði Skatturinn á niðurhal reikninga á vef sínum. Enn er þó beðið eftir reglugerð sem skýrir áhrif breytinganna á samninga um afhendingu gagna til miðlara eins og Creditinfo. Við höfum engu að síður ákveðið að afhenda þá gjaldfrjálst með einföldum hætti á vef okkar,“ segir Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo.

Áreiðanlegustu upplýsingar um rekstur fyrirtækja er oftast að finna í ársreikningum þeirra. Með upplýsingum úr ársreikningi er meðal annars hægt að leggja mat á það hversu vel rekstur fyrirtækis hefur gengið síðustu ár, stærð fyrirtækisins, skuldsetningu og margt fleira.

Fletta upp fyrirtæki í vefverslun Creditinfo