Uppfært lánshæfismat einstaklinga

Nýjasta uppfærsla Creditinfo á lánshæfismati einstaklinga varð aðgengileg þann 23. nóvember síðastliðinn.  

Lánshæfismat Creditinfo er mat á líkum þess að þú munir standa við skuldbindingar þínar og er notað af bönkum og ýmsum aðilum sem veita fjárhagslega fyrirgreiðslu. 

Til að tryggja að lánshæfismatið sé eins nákvæmt og áreiðanlegt og mögulegt er hverju sinni er líkanið á bak við lánshæfismatið uppfært reglulega af sérfræðingum Creditinfo. 

Nýjasta uppfærsla Creditinfo á lánshæfismati einstaklinga varð aðgengileg þann 23. nóvember síðastliðinn.  

Við uppfærslu á lánshæfismatinu getur vægi einstakra þátta sem liggja til grundvallar matinu eftir atvikum minnkað eða aukist, nýir þættir teknir til skoðunar eða gamlir felldir út, og lánshæfiseinkunn einstaklinga því breyst. 

Upplýsingar aðgengilegar á Mitt Creditinfo 

Til að þú getir fylgst með þínu lánshæfismati getur þú skráð þig inn á Mitt Creditinfo til að sækja yfirlit og upplýsingar um þína stöðu.  

Á meðal þess sem þú getur sótt eru upplýsingar um áhrifaþætti í lánshæfismati, þ.e. hvaða þættir hafa áhrif til hækkunar eða lækkunar á þínu lánshæfismati. Einnig getur þú með einföldum og öruggum hætti komið á framfæri athugasemdum og fyrirspurnum til Creditinfo í gegnum Mitt Creditinfo

Breytingar í nýrri uppfærslu 

Í nýrri uppfærslu á lánshæfismati Creditinfo hafa verið gerðar breytingar á áhrifaþáttum lánshæfismatsins í samræmi við nýja reglugerð um vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust.  

Einn af áhrifaþáttum í lánshæfismati einstaklinga eru upplýsingar um fyrri vanskil. Í nýrri uppfærslu er litið til eldri upplýsinga um vanskil einstaklinga en áður, en besti sögulegi mælikvarði á það hvort einstaklingar standi við skuldbindingar sínar í framtíð er hvort þeir hafi alltaf gert það áður. Creditinfo leggur þó mikla áherslu á að nota eingöngu sögulegar upplýsingar sem hafa afgerandi áhrif á mat á því hvort staðið verði við skuldbindingar í framtíð. Þessi breyting hefur því áhrif til hækkunar eða lækkunar á lánshæfismati eftir því hver vanskilasaga viðkomandi er. Það þýðir að lánshæfismat þeirra sem hafa alltaf staðið í skilum, yfir 93% þjóðarinnar, er líklegt til að batna á meðan lánshæfismat sumra þeirra sem hafa ekki alltaf staðið í skilum versnar. 

Myndin hér að neðan sýnir dreifingu þjóðarinnar í lánshæfisflokka en þar sést að langstærstur hluti er með gott lánshæfi, t.d. er um 93% einstaklinga með lánshæfi B3 eða betra. 

Mikilvægt að deila viðbótargögnum 

Aðstæður fólks geta breyst hratt og til að tryggja að lánshæfismatið gefi eins nákvæma mynd af stöðu þinni og mögulegt er hvetjum við þig til að deila með okkur viðbótargögnum á Mitt Creditinfo.