Almennir skilmálar áskriftarsamnings um aðgang, notkun og meðferð upplýsinga úr skrám Creditinfo

  1. Áskrifandi fær með samningi þessum aðgang að þjónustu Creditinfo Lánstrausts hf. (hér eftir CI)
  2. Allar upplýsingar úr skrám CI eru trúnaðarmál, og mega ekki afhendast öðrum, beint eða óbeint, nema að fengnu skriflegu samþykki CI. Hvers kyns áframsala eða áframmiðlun upplýsinga úr skrám CI er sömuleiðis óheimil án skriflegs samþykkis CI.
  3. Áskrifanda er skylt að geyma allar upplýsingar úr skrám CI á öruggum stað. Hvers kyns áframsala, áframmiðlun eða opinber birting upplýsinga úr skrám CI er óheimil án skriflegs samþykkis CI.
  4. Áskrifanda er með öllu óheimilt að afrita skrár CI, samtengja þær við aðrar skrár eða vinna upplýsingar úr þeim á nokkurn annan hátt, sem er í ósamræmi við umsaminn tilgang vinnslunnar.
  5. Áskrift fylgir réttur til að gera fyrirspurnir í skrár CI. Fjórir starfsmenn hjá hverjum áskrifanda hafa heimild til að gera fyrirspurnir á grundvelli samnings þessa og skulu þeir hafa eigin aðgangsauðkenni, sem þeir mega ekki láta öðrum í té eða nota á vegum annars áskrifanda. Áskrifanda er heimilt, gegn endurgjaldi, að fá aðgang fyrir viðbótarnotendur. Áskrifandi skuldbindur sig til að upplýsa CI við upphaf áskriftarsamnings, hverjir eiga að hafa þessa heimild. Verði breytingar þar á af hálfu áskrifanda, ber honum að láta CI vita. Hætti starfsmaður, sem hefur þessa heimild, störfum hjá áskrifanda, ber áskrifanda að tilkynna það til CI. Óheimilt er að endurnýta aðgangsauðkenni, t.d. við starfsmannaskipti. Öll hugsanleg misnotkun fyrrum starfsmanns áskrifanda er á ábyrgð áskrifanda. CI getur gert kröfu á áskrifanda vegna tjóns sem kann að hljótast af slíkri misnotkun á skrám CI.
  6. Áskrifandi ber ábyrgð á og skal tryggja að vinnsla persónuupplýsinga, sem felst í öflun upplýsinga úr skrám CI, byggi ávallt á fullnægjandi vinnsluheimildum samkvæmt persónuverndarlögum hverju sinni. Vöktun áskrifanda á kennitölu einstaklings er aðeins heimil ef vöktunin er nauðsynleg fyrir áskrifandann til að innheimta kröfu eða kröfur á hendur viðkomandi einstaklingi, vegna fjárhagslegrar fyrirgreiðslu áskrifanda til viðkomandi eða vegna annars konar fjárhagslegrar skuldbindingar hans gagnvart áskrifanda. Áskrifandi sem vaktar kennitölu einstaklings skal láta af vöktun þegar fyrrgreindar heimildir liggja ekki lengur fyrir til grundvallar vöktun.
  7. Uppflettingar skulu vera rekjanlegar til þess starfsmanns sem framkvæmir uppflettingu hverju sinni. Rekjanleiki skal einnig tryggður þegar aðgangur áskrifanda er í gegnum vefþjónustu eða með öðrum sambærilegum hætti og ber áskrifandi ábyrgð á því að rekjanleiki sé tryggður þegar notast er við vefþjónustur.
  8. Áskrifandi ber ábyrgð á meðhöndlun starfsmanna hans á gögnum sem áskrifandi móttekur á grundvelli samnings þessa. Gildir það einnig um gögn sem starfsmenn áskrifanda koma höndum yfir og ekki falla undir samning þennan, en eru komin til áskrifanda frá CI, beint eða óbeint. Áskrifandi ábyrgist að öll meðhöndlun upplýsinga sé í samræmi við lög, reglur og tilmæli Persónuverndar og að meginreglur laga um persónuvernd séu hafðar í huga í hvívetna, þ.m.t. varðandi alla vinnslu. Áskrifandi skal grípa til allra þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar eru til að tryggja að upplýsingar berist ekki þriðja aðila og gæta þess að eyða upplýsingum þegar varðveisla þeirra telst ekki lengur nauðsynleg.
  9. Starfsmaður hjá áskrifanda, sem hefur heimild til að sækja upplýsingar í skrár CI, er bundinn þagnarskyldu um innihald þeirra upplýsinga. Áskrifandi skal tryggja að starfsmenn nýti aðgang sinn að skrám CI, þ.á.m. vöktun kennitölu einstaklings, í samræmi við ákvæði laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, reglugerðar (ESB) 2016/679 og reglugerðar nr. 606/2023 um vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust og tilkynni CI um frávik frá lögmætri notkun einstakra starfsmanna á aðgangi sínum. Öll notkun áskrifanda er skráð og er CI skylt að afhenda bæði einstaklingum og lögaðilum upplýsingar um það hvaða áskrifandi hefur flett honum upp í skrám CI, hvenær uppfletting var framkvæmd, vöktun hafin eða látið er af vöktun, auk ástæðu uppflettingar eða vöktunar.
  10. Geri áskrifandi uppflettingu á lánshæfismati einstaklings eða lögaðila, VOG vanskilaskrá, eign einstaklinga í félögum eða hefur vöktun á kennitölu skal hann skrá ástæðu uppflettingar eða vöktunar með því að velja úr lista ástæðulykla sem gefinn er upp við uppflettingu. CI mun gera viðkomandi viðvart um hvaða áskrifandi aflaði upplýsinganna eða hóf vöktun. Ef ástæða uppflettingar áskrifanda þarfnast nánari skýringa ber áskrifanda að svara beiðni CI innan 10 virkra daga frá sendingu beiðnar.
  11. Áskrifanda ber að veita hinum skráðu ávallt lögbundna fræðslu og upplýsa einstakling eða lögaðila ef synjun um lánveitingu byggist á upplýsingum úr skrám CI. Jafnframt ber áskrifanda að greina viðkomandi frá réttindum hans til aðgangs að upplýsingum sem skráðar eru hjá CI.
  12. CI hefur virkt eftirlit með því að áskrifandi fari að skilmálum þessa samnings. Komi í ljós við slíkt eftirlit, eða með einhverjum öðrum hætti, að áskrifandi hafi brotið gegn skilmálum í áskriftarsamningi ber CI að tilkynna það tafarlaust til Persónuverndar sem tekur þá ákvörðun um beitingu valdheimilda sinna, þ.á.m. um hvort lögð verði á stjórnvaldssekt og hver fjárhæð hennar skuli vera. Jafnframt ber CI að grípa til viðhlítandi ráðstafana með það fyrir augum að hindra að brot endurtaki sig, s.s. með því að rifta samningi þessum án aðvörunar eftir því sem við á.
  13. Áskriftargjald greiðist mánaðarlega og er gjalddagi reikninga síðasti dagur hvers mánaðar eftir að úttekt fór fram. Dragist greiðsla fram yfir eindaga munu dráttavextir verða reiknaðir frá og með gjalddaga. Vanskilagjald, kr. 950, leggst ofan á innheimtuviðvörun sem fer út 5 dögum eftir eindaga.
  14. Ábyrgðarmaður og skuldari heimila Creditinfo Lánstrausti hf. að skrá vanskil sem varað hafa lengur en 40 daga í skrá CI yfir vanskil o.fl.
  15. Greitt skal fyrir notkun á vörum CI samkvæmt verðskrá hverju sinni nema annað sé tekið fram. Vakin er athygli á því að greiða skal fyrir grunnstöðu á vanskilum og/eða lánshæfismati þegar kennitala er sett á vakt og er gjald það sama og uppfletting í viðeigandi vörum samkvæmt verðskrá.
  16. Með Gulláskrift fylgir fjölmiðlavöktun á fyrirtæki áskrifanda. Áframsala og hvers konar áframmiðlun á upplýsingum sem aðgengilegar eru í Fjölmiðlavaktinni er með öllu óheimil nema með skriflegu samþykki CI.
  17. Áskrifanda er skylt að greina þeim starfsmönnum sínum, sem fá aðgang að skrám CI á grundvelli samnings þessa, frá öllu því er máli skiptir hvað notanda varðar, varðandi efni hans, svo sem um trúnað.
  18. Upplýsingar í skrám CI eru eign CI. Réttur til notkunar upplýsinga sem fengnar eru hjá CI takmarkast af ákvæðum samnings þessa, lögum og stjórnvaldsfyrirmælum. Réttur áskrifanda til notkunar upplýsinga CI fellur niður um leið og samningur þessi fellur úr gildi.
  19. CI ber ekki ábyrgð á tjóni sem kann að hljótast af því að upplýsingar í skrám þess reynast rangar, eða kerfi virka rangt eða ekki. Gildir þetta um allar þær upplýsingar sem CI miðlar.
  20. CI áskilur sér rétt til að breyta samningsskilmálum þessum einhliða eða vera óbundið af einstökum ákvæðum samnings þessa, ef lögum er breytt á þann veg, að efndir séu ómögulegar af hálfu CI. Sama gildir ef aðrar opinberar reglur standa efndum í vegi, breytingar á starfsleyfi CI svo og vis major af einhverri tegund. Gildandi skilmálar áskriftarsamnings þessa teljast vera þeir sem birtir eru hverju sinni á vefsvæði CI.
  21. Vanefni annar hvor samningsaðila samninginn er hinum aðila samningsins heimilt að rifta samningnum, enda sé ekki úr bætt innan 14 daga frá áskorun þar um. Brjóti áskrifandi gegn þeim ákvæðum samningsins er varða trúnað við CI eða hina skráðu verða slíkt brot tilkynnt til Persónuverndar auk þess sem þá skapast heimild CI til að rifta samningi án undangenginnar viðvörunar og jafnframt heimild til að gera kröfu á hendur áskrifanda vegna tjóns er hljótast kann af þeim brotum. Um samning þennan gilda íslensk lög. Rísi ágreiningur um hann skal reka málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Almennir skilmálar þessir gilda frá 1. september 2023