Hvatningarverðlaun

Nýsköpun og sjálfbærni

Í fimm ár hefur Creditinfo veitt hvatningarverðlaun fyrir nýsköpun og sjálfbærni þeim fyrirtækjum sem þykja skara fram úr á þeim sviðum í hópi Framúrskarandi fyrirtækja. Málaflokkarnir eru okkur mikilvægir og við trúum því að öll Framúrskarandi fyrirtæki þurfi að huga að bæði nýsköpun og sjálfbærni með markvissum hætti. Hvatningarverðlaununum er því ætlað að draga fram fyrirmyndirnar sem geta verið öðrum hvatning á þessum sviðum. Verðlaunin eru veitt á sama tíma og listinn er gerður opinber ár hvert.


Hvatningarverðlaun Creditinfo og Icelandic Startups fyrir Framúrskarandi nýsköpun 2022 — Origo hf.

Árið 2022 hlýtur Origo hvatningarverðlaun Creditinfo fyrir framúrskarandi nýsköpun.

Í dómnefnd sátu: Ólafur Andri Ragnarsson, formaður, Kristín Soffía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups, Helga Valfells, framkvæmdastjóri og stofnandi Crowberry og Þorsteinn G. Gunnarsson, ráðgjafi.

Origo er íslenskt upplýsingatæknifyrirtæki sem á rætur sínar að rekja til árdaga tölvuvæðingar landsins. Það er samofið upplýsingatækni í gegnum IBM á Íslandi á síðustu öld, svo Nýherja og loks Origo með sameiningu leiðandi aðila í upplýsingatækni. Í umsögn dómnefndar segir einnig að fyrirtækið hafi haft nýsköpun að leiðarljósi og þurft stöðugt að endurnýjast í gegnum tíðina og aðlagast sífelldum tæknibreytingum.

Meira um verðlaunin á blogg.creditinfo.is



Origo, vinningshafi 2022


Hvatningarverðlaun Creditinfo og Festu fyrir framúrskarandi sjálfbærni 2022 — Reginn hf.

Árið 2022 hlýtur Reginn verðlaun fyrir framúrskarandi árangur á sviði sjálfbærni.

Í dómnefnd sátu: Erla Tryggvadóttir formaður dómnefndar, samskiptastjóri VÍS, varaformaður stjórnar Festu, Jón Geir Pétursson, dósent við HÍ sem sæti á í stjórn Festu og Sigríður Guðjónsdóttir, notendarannsakandi á Þjónustu og nýsköpunarsviði Reykjavíkurborgar og stofnandi SPJARA.

Í umsögn dómnefndar kemur fram að Reginn hf. leggi mikla áherslu á sjálfbærni í sínum rekstri og leggur kapp á að hvetja viðskiptavini til þess sama og hefur þar með víðtækari áhrif á sjálfbæra þróun í samfélaginu. Þá er einnig nefnt að Reginn mótaði sjálfbærnistefnu árið 2019 sem tók á umhverfislegum, félagslegum og efnahagslegum þáttum. Samhliða setti félagið sér mælanleg markmið í þessum þremur flokkum sem unnið hefur verið með góðum árangri. Það er trú félagsins að áhersla á sjálfbærni dragi úr áhættu í rekstri félagsins og styrki fjárhagslega arðsemi til lengri tíma litið.

Meira um verðlaunin á blogg.creditinfo.is



Reginn, vinningshafi 2022