868 framúrskarandi fyrirtæki

Creditinfo veitti framúrskarandi fyrirtækjum viðurkenningar í Hörpu í dag fyrir rekstrarárið 2016. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra afhenti Hampiðjunni sérstök verðlaun fyrir nýsköpun og N1 verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í samfélagsábyrgð.

Creditinfo hefur greint rekstur íslenskra fyrirtækja síðustu átta ár og birt lista yfir þau fyrirtæki sem teljast framúrskarandi. Það sem einkennir fyrirtæki á listanum er að þau sýna stöðugleika í rekstri og eru líkleg til að hafa jákvæð áhrif á efnahag og samfélagið. Fjöldi fyrirtækja á listanum hefur aukist ár frá ári. Á síðastliðnu ári komust 629 fyrirtæki á listann en nú í ár voru 868 fyrirtæki á listanum eða 2,2% allra skráðra fyrirtækja á Íslandi. Samherji hf. trónir efst á lista stórra fyrirtækja, Eignarhaldsfélagið Randver ehf. er efst meðalstórra fyrirtækja og fasteignasalan Eignamiðlunin ehf. efst á lista yfir lítil fyrirtæki. Samstarfsaðilar Creditinfo hf. um Framúrskarandi fyrirtæki eru Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Icelandic Startups og Festa miðstöð um samfélagsábyrgð.

Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo, sagði í sínu erindi að það væri ánægjulegt að sjá svona mikla fjölgun á listanum í ár og að það endurspeglaði góðu stöðu fyrirtækja á atvinnumarkaði. „Það er sérstaklega gleðilegt að verðlauna fyrirtæki fyrir góðan árangur í nýsköpun og nú í fyrsta sinn samélagsábyrgð. Þessi fyrirtæki auka verðmætasköpun til lengri tíma litið og eru samfélaginu til heilla.". Skilyrðin fyrir að komast á lista framúrskarandi fyrirtækja endurspeglar hugmyndafræðina á bak við efnahagslega sjálfbærni en markmiðið með þessari viðurkenningu er að hvetja fyrirtæki að vera einnig ábyrg og meðvituð um áhrif starfsemi fyrirtækja á umhverfi og samfélag.

Samfélagsábyrgð verðlaunuð í fyrsta sinn

Samfélagsábyrgð fyrirtækja er verðlaunuð í fyrsta sinn í ár og hlaut N1 verðlaunin. Viðurkenningin er veitt fyrirtæki sem þykir vera framúrskarandi í samfélagsábyrgð og hefur markað sér skýra stefnu og markmið í þessum málaflokki. Dómnendina að þessu sinni skipuðu Þorsteinn Kári Jónsson og Sæmundur Sæmundsson úr stjórn Festu og Hanna V. Þorsteindóttir sérfræðingur á sviði samfélagsábyrgðar.


Í umsögn dómnefndar segir: „Fyrirtækið gerir góð skil á stefnu sinni og upplýsingum um samfélagsábyrgð í ársskýrslu og á vefsíðu sinni. Megin áhersla er lögð á umhverfismál, ábyrga stjórnarhætti og jafnréttismál og hefur fyrirtækið náð góðum árangri á þeim sviðum og hefur þróað ýmiss samfélagslega mikilvæg verkefni á síðustu árum sem tengjast áherslum þess. Góður árangur fyrirtækisins speglast í ánægðum viðskiptavinum og starfsmönnum."

„Þetta er fyrst og fremst viðurkenning fyrir starfsfólk N1 sem hefur um margra ára skeið horft til framtíðar, unnið af heilindum með þá framtíðarsýn að samfélagsábyrgð skipti máli og þá hugsjón að við eigum að huga að komandi kynslóðum," sagði Eggert Kristinsson forstjóri N1.

Hampiðjan verðlaunuð fyrir nýsköpun

Markmiðið með því að verðlauna nýsköpun hjá rótgrónu fyrirtæki er að vekja athygli á mikilvægi nýsköpunar hjá öllum fyrirtækjum, ekki bara sprotafyrirtækjum. Að þessu sinni hlaut Hampiðjan verðlaun og var það mat dómnefndar að fyrirtækið væri sönn fyrirmynd starfandi fyrirtækja þegar kemur að öflugu nýsköpunarstarfi. Dómnefnd var skipuð Salóme Guðmundsdóttur framkvæmdastjóra Icelandic Startups, Hjálmari Gíslasyni, stofnandi Datamarket og framkvæmdastjóra gagna hjá Qlik í Boston, Ragnheiði H. Magnúsdóttur viðskiptastjóra hjá Marel og formanni Tækninefndar Vísinda- og tækniráðs.

 


Í umsögn dómnefndar kemur fram að saga Hampiðjunnar hafi hafist í raun á mjög öflugri nýsköpun. "Á þeim rúmu 80 árum sem fyrirtækið hefur starfað hefur Hampiðjan ofið rannsóknir og þróun inn í kjarnastarfsemi sína og menningu með skýrum hætti. Áhersla fyrirtækisins á vöruþróun og nýsköpun hefur leitt til fjölda tækifæra sem nýtt hafa verið til fulls, opnað nýja markaði, framkallað skilvirkari framleiðsluaðferðir og skapað þeim sérstöðu á alþjóðavettvangi. Samhliða þessum áherslum hefur fyrirtækið vaxið, útvíkkað starfsemi sína til annarra landa og keypt netaverkstæði víða um heim. Starfsmenn Hampiðju samstæðunnar eru nú yfir 900 talsins, þar af um 70 á Íslandi. Fyrirtækið starfar í 12 löndum með alls 35 starfsstöðvar allt frá vestasta odda Alaska til Nýja Sjálands í austri. Heildarvelta fyrirtækisins var um 14,5 milljarðar króna árið 2016 á gengi dagsins í dag. Um 90% af þeirri veltu kemur erlendis frá og eru þeirra stærstu markaðir veiðarfæri og fiskeldisþjónusta. Einkaleyfi Hampiðjunnar eru orðin yfir 20 talsins og vernda fyrst og fremst uppfinningar í efnum veiðarfæra og vörur fyrir olíuiðnað. Áhugaverðar nýjungar eru jafnframt í farvatninu sem snúa að aukinni gagnaflutningsgetu í nýrri gerð veiðarfæra sem hafa munu mikil áhrif á veiðitækni framtíðarinnar. "Það er okkur í Hampiðjunni mikill heiður að fá verðlaun Creditinfo fyrir nýsköpun því við leggjum afar mikla áherslu á vöruþróun og nýsköpun í okkar daglega starfi. Starfsmenn okkar eru sífellt með hugann við gera betur og þróa ný efni til veiðarfæragerðar ásamt því að endurbæta og endurhanna veiðarfærin enda lítum við á það sem eitt helsta hlutverk okkar að aðstoða viðskiptavini okkar í sjávarútvegi við að ná betri árangri í sínum störfum. Þetta viðhorf starfsmanna fyrirtækisins undanfarna áratugi hefur gert Hampiðjuna að einum fremsta framleiðanda veiðarfæra í heiminum og skapað okkur fjölmörg tækifæri til að vaxa. Þessi verðlaun eru okkur því mikil hvatning til að halda áfram á sömu braut og gera enn betur," sagði Hjörtur Erlendsson forstjóri Hampiðjunnar við þetta tilefni.

Bættur hagur Framúrskarandi fyrirtækja

Hagur Framúrskarandi fyrirtækja er að vænkast en 239 ný fyrirtæki bættust á listann í ár miðað við 112 á síðasta ári. 84 fyrirtæki hafa verið á listanum frá upphafi eða frá árinu 2010. Dregið hefur talsvert úr vanskilum félaga undanfarin ár. Einungis 1,6% stórra fyrirtækja eru með vanskil, 4,1% meðalstórra og 9.7% lítilla fyrirækja. Meðaltalsarðsemi eiginfjár stórra fyrirtækja á listanum var 14,73% miðað við 10% hjá öllum skráðum félögum. Eiginfjárhlutfall 50%, eignir upp á 12 miljarða króna og vegið meðaltal rekstarhagnaðar var 1 milljarður króna í samanburði við 745 milljóna króna hagnað hjá öllum skráðum fyrirtækjum. Meðalstór fyrirtæki voru að meðaltali með 26% arðsemi eiginfjár, eiginfjárhlutfallið var 58% og eignir upp á 464 milljónir króna. Lítil fyrirtæki voru að meðaltali með 61% í eignfjárhlutfall, 27% í arðsemi eiginfjár og eignir upp á 139 milljónir króna.

Þau félög sem fá viðurkenningu Creditinfo sem Framúrskarandi fyrirtæki þurfa að uppfylla viss skilyrði er varða rekstur og stöðu þeirra. Félögin þurfa að hafa skilað ársreikningum síðustu þriggja ára. Ennfremur þurfa líkur á alvarlegum vanskilum að vera undir 0,5% og félögin þurfa að sýna fram á rekstrarhagnað síðustu þriggja ára. Jafnframt þarf eiginfjárhlutfall félaganna að vera 20% eða meira þrjú rekstrarár í röð auk þess sem eignir þurfa að vera 90 milljónir eða meira á síðasta rekstrarári og a.m.k. 80 milljónir árin tvö þar á undan.