Creditinfo skráir ekki kostnað við lán sem er umfram lögbundið hámark á vanskilaskrá

Creditinfo hefur ákveðið að skerpa á ferlum varðandi skráningu á vanskilum lána til að tryggja enn frekar að skráningar í vanskilaskrá séu réttmætar.

 Í ljósi vafa um lögmæti kostnaðar af tilteknum tegundum lána og sérstaklega þá fyrirætlan ráðherra að leggja fram frumvarp sem mun taka á þessum vanda telur Creditinfo rétt að miða skráningu vanskila við höfuðstól þeirra lána sem bera kostnað umfram lögbundið hámark samkvæmt lögum um neytendalán. 

„Fjármálamarkaðurinn hér á landi er að breytast hratt og nýir þátttakendur að koma inn á markaðinn. Það er mikilvægt að eftirlitsaðilar og stjórnvöld séu vakandi og bregðist hratt við ef aðilar á markaði eru ekki að fylgja lögum og reglum í landinu. Líkt og komið hefur fram hjá Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra neytendamála, þá fylgja lánafyrirtækin í landinu almennt lögum um neytendalán. Creditinfo fagnar því að skýrt verði kveðið á um aðgerðir gegn lánastarfsemi sem brýtur á ákvæðum laga um hámarkskostnað við lántöku. Creditinfo mun að sjálfsögðu framfylgja ákvörðunum stjórnvalda í þessum málum og sjá til þess að okkur berist réttmætar upplýsingar varðandi skráningar á vanskilaskrá því hlutverk hennar er að styðja við ábyrga lánastarfsemi í landinu. Í ljósi þessa þá er brýnt að stór-efla fræðslu til neytenda varðandi lán og kostnað sem hlýst af þeim,“ segir Sigríður Laufey Jónsdóttir lögfræðingur Creditinfo.