Framúrskarandi
Framúrskarandi
Framúrskarandi fyritæki

1006 Framúrskarandi fyrirtæki 2023

26.10.2023

Creditinfo kynnti í gær sinn árlega lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki í Hörpu. Yfir þúsund manns mættu til að fagna þeim 1.006 fyrirtækjum sem stóðust ströng skilyrði Creditinfo til að verða Framúrskarandi fyrirtæki. Fyrirtækjum á listanum fjölgaði um 7% á milli ára en alls bættust við 148 ný félög sem hafa aldrei verið á listanum á meðan 121 félag datt út af listanum frá því í fyrra.

Tækifæri á markaðnum

Hrefna Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo, ávarpaði gesti og fagnaði því sérsetaklega að aldrei hafa jafn mörg fyrirtæki verið á lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki. „Öflugt íslenskt atvinnulíf skiptir hér sköpum fyrir hagsæld og við þurfum öll að standa vörð um þá stöðu,“ sagði Hrefna. „Þess vegna var einstaklega ánægjulegt að sjá framúrskarandi fyrirtækjum fjölga á milli rekstraráranna 2021 og 2022. Við vitum að það eru krefjandi tímar fram undan og þá skiptir miklu máli að fara vel undirbúin inn í þær aðstæður. Góður rekstur tryggir einnig að hægt sé að fylgja tækifærum eftir sem birtast á markaðnum og þau eru fjölmörg í öllum þeim breytingum sem eru að eiga sér stað.“

Þörf á samstöðu

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, var sérstakur heiðursgestur hátíðarinnar og talaði hún um að íslenskt atvinnulíf væri undirstaða verðmætasköpunar á Íslandi og að framúrskarandi fyrirtæki væru afreksfólk í íslensku atvinnulífi. Í ræðu sinni benti hún á að krefjandi tímar væru fram undan í íslensku atvinnulífi og að þörf væri á samstöðu allra til að brjótast úr vítahring verðbólgu og vaxta. „Við finnum til mikillar ábyrgðar og við erum meðvituð um að í baráttunni við verðbólguna má enginn skorast undan ábyrgð. Við munum leggja áherslu á að launabreytingar nýrra kjarasamninga verði í samræmi við getu atvinnulífsins og verðmætasköpun í hagkerfinu,“ sagði Sigríður.

Hvatningarverðlaun um sjálfbærni og nýsköpun

Að loknum erindum Hrefnu og Sigríðar voru veitt sérstök hvatningarverðlaun um sjálfbærni og nýsköpun. Hvatningarverðlaunin um sjálfbærni voru veitt í samstarfi við Festu - miðstöð um sjálfbærni og voru hvatningarverðlaunin um nýsköpun veitt í samstarfi við Klak - Icelandic Startups. Það fyrirtæki sem hlaut hvatningarverðlaun um framúrskarandi sjálfbærni var Össur hf. og hlaut Héðinn hf. hvatningarverðlaun um framúrskarandi nýsköpun.


Veglegt sérblað fylgir Morgunblaðinu

Hægt er að sjá viðtöl við forsvarsmenn fjölbreyttra Framúrskarandi fyrirtækja ásamt áhugaverðri tölfræði í veglegu sérblaði Morgunblaðsins.

 

Deila efni:

Fréttabréf Creditinfo

Fáðu nýjustu fréttir af lausnum og þjónustu Creditinfo í tölvupósti
Frábært! Þú ert núna skráð(ur) í fréttabréfið hjá Creditinfo
Úps, eitthvað fór úrskeiðis. Vinsamlegast reynið aftur með því að endurhlaða síðuna