Áskrifendur sem gert hafa samning við Creditinfo um innsendingu vanskilamála hafa heimild til að óska skráningar á upplýsingum um vanskil einstaklinga ef samanlagður höfuðstóll krafna nemur að lágmarki 50.000,- krónum, þ.e. fjárhæð krafna að undanskildum vöxtum og öðrum kostnaði, þ.m.t. innheimtukostnaði og annaðhvort löginnheimta hafin eða að fyrir liggi skrifleg viðurkenning greiðanda á gjaldfallinni skuld. Vanskil lögaðila er heimilt að skrá án tillits til fjárhæða. Skráningar þurfa að uppfylla a.m.k. eitt eftirfarandi skilyrða:
1. Skuldari hafi skriflega gengist við því að krafa sé í gjalddaga fallin.
2. Skuldari hafi fallist á að greiða skuldina með sátt sem er aðfararhæf samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.
3. Skuldara hafi með dómi, úrskurði eða áritaðri stefnu verið gert að greiða skuldina.
4. Skuldara hafi sannanlega verið birt boðun í fyrirtöku fjárnámsgerðar sem ekki hefur verði unnt að ljúka vegna fjarveru hans.
5. Skuldara hafi sannanlega verið birt greiðsluáskorun vegna skuldarinnar, enda uppfylli hún:
5.1 Öll skilyrði 7. gr. laga nr. 90/1989, og fyrir liggi að frestur samkvæmt því ákvæði sé liðinn
5.2. Öll skilyrði 9. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, og fyrir liggi að frestur samkvæmt því ákvæði sé liðinn
6. Fyrir liggi sannanlega vanefndur nauðasamningur, samningur eða nauðasamningur til greiðsluaðlögunar sem skuldari hefur gert og áskrifandi er aðili að.
7. Skuldari hafi með sérstakri yfirlýsingu í láns- eða skuldaskjali, sem skuldin er sprottin af, fallist á að áskrifandi óski skráningar fjárhagsupplýsingastofu á vanskilunum, enda séu skilyrði til þess uppfyllt. Slík heimild skal vera áberandi og skýr í skjalinu og við það miðuð að vanskil hafi varað í a.m.k. 40 daga.
8. Skuldari hafi með áritun á svonefnda eignaleysisyfirlýsingu, sbr. 4. tölul. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., fallist á að kröfuhafi óski skráningar hennar hjá Creditinfo, enda sé slík heimild skýr og áberandi í skjalinu.
9. Skuldari hafi ekki innan 3 vikna orðið við áskorun lánardrottins, sem birt hefur verið honum eftir sömu reglum og gilda um birtingu stefnu í einkamáli, um að lýsa því skriflega yfir að hann verði fær um að greiða skuld við hlutaðeigandi lánardrottinn þegar hún fellur í gjalddaga eða innan skamms tíma ef hún er þegar gjaldfallin, sbr. 5. tölul. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 95/2010 og 78/2015.
10. Hafa gert hinum skráða viðvart, með áletrun á útgefinn reikning, greiðsluseðil eða innheimtuviðvörun, um að upplýsingum um vanskil verði miðlað til Creditinfo og að vanskil hafi varað í að minnsta kosti 40 daga. Ekki er heimilt að skrá vanskil samkvæmt þessari heimild, ef um vanskil einstaklinga er að ræða