Áhugaverð umræða hefur átt sér stað um sjálfbærniupplýsingar fyrirtækja og gullhúðun regluverks. Oft er bent á að kostnaður vegna upplýsingagjafar getur verið hár og að ferlið sé flókið. Í þessu samhengi er vert að benda á að sjálfbærniupplýsingar fyrirtækja eru ekki einungis þær upplýsingar sem opinberir aðilar krefja þau um að birta. Sjálfbærniupplýsingar fyirirtækja birtast t.d. í dómsmálum, fjölmiðlum, ársreikningum og á ýmsu formi í virðiskeðju þeirra svo eitthvað sé nefnt. Til að ná utan um sjálfbærniupplýsingar fyrirtækja er einnig mikilvægt að setja fyrirtæki í samhengi við atvinnugreinar og þær áhættur sem þær standa frammi fyrir, bæði beint og óbeint í gegnum virðiskeðjur sínar. Þrátt fyrir að staðlaðar upplýsingar í gegnum kröfur hins opinbera séu mikið framfaraskref þá eru þær einungis eitt púsl af þeim upplýsingum sem fjármálamarkaðurinn þarfnast og í einhverjum tilvikum ekki þær upplýsingar sem aðilar á fjármálamarkaði þarfnast mest.
Sjálfbærniupplýsingar fyrirtækja hafa farið frá því að vera afurð markaðsdeilda í því að fylgja leiðbeiningum almennt viðurkenndum af markaðsaðilum og að lokum undir regluverki yfirvalda. Þrátt fyrir að nýlegt regluverk tengt sjálfbærniupplýsingagjöf sé flókið (CSRD, Flokkunarreglugerðin og SFDR svo dæmi séu tekin) þá er það ekki tæmandi yfir þær upplýsingar sem markaðsaðilar þurfa á að halda fyrir upplýsta ákvarðanatöku. Það þýðir að ef greinandi á að skoða fyrirtæki með sjálfbærni að leiðarljósi eru aðrir þættir en þeir sem regluverkið telur mikilvægt og fyrirtæki setja fram. Hér má nefna utanaðkomandi þætti í virðiskeðjum fyrirtækja líkt og uppskerubresti erlendis, sveiflur á hrávöruverði og aðgengi að vörum fyrirtækisins á helstu markaðssvæðum vegna samfélagslegs óstöðugleika ásamt upplýsingum sem verða til oftar en árleg skýrsluskil geta gefið til kynna (t.d. upplýsingar úr dómsmálum og úr fjölmiðlum). Það er því ljóst að þær upplýsingar sem koma til með að birtast frá fyrirtækjunum sjálfum í samræmi við regluverk eru stökk fram á við en þó aðeins fyrsta skrefið í átt að áreiðanlegri upplýsingagjöf um sjálfbærni fyrirtækja.
Þótt fyrirtæki birti upplýsingar í samræmi við reglugerðir tryggir slík upplýsingagjöf ekki að aðgengi hagaðila að þeim. Vandamálið er að einhverjum hluta tæknilegs eðlis þar sem sjálfbærniupplýsingar birtast m.a. í skönnuðum ársreikningum, ársskýrslum af ýmsu tagi og vefsíðum á sniði sem ekki fylgir alltaf leiðbeiningum regluverksins. Fyrir þessum vanda hugsaði Evrópusambandið illa. Á einhverjum tímapunkti mun Evrópusambandið setja í loftið gagnagrunn (European Single Access Point, ESAP) sem mun taka við skýrslum á fyrirframákveðnu sniði. Sá grunnur mun í fyrsta lagi komast á laggirnar árið 2027 samkvæmt opinberum upplýsingum frá ESB. Það er því mikilvægt að sjálfbærniupplýsingum um fyrirtæki sé safnað miðlægt. Því hlutverki höfum við hjá Creditinfo stolt tekið að okkur, enda um lykilupplýsingar fyrirtækja að ræða.
Íslensk fjármálafyrirtæki vilja nálgast áreiðanlegar sjálfbærniupplýsingar um fyrirtæki. Þau vilja nálgast þessar upplýsingar að hluta til vegna þess aðlaga kröfur gera ráð fyrir að fjármálafyrirtæki hafi þessi gögn til taks, en einnig vegna þess að starfsfólk fjármálafyrirtækja tekur sjálfbærniáhættu alvarlega. Þetta má greinilega lesa í áhættuskýrslum banka. Einnig hafa fyrirtæki utan fjármálamarkaða sent spurningalista á birgja sína til að nálgast sjálfbærniupplýsingar. Þess vegna fá fyrirtæki gjarnan marga slíka spurningalista á hverju ári úr ólíkum áttum. Við hjá Creditinfo sjáum að hér er mikil sóun að eiga sér stað. Í stað þess að fjöldi útgáfa af spurningalistum sé í umferð með tilheyrandi vinnu, áttuðum við okkur á því að eðlilegra væri ef fyrirtæki svari einum slíkum lista sé hann gerður aðgengilegur öllum sem áhuga á honum hafa. Sá spurningalisti er nú aðgengilegur í Veru, sjálfbærniviðmóti Creditinfo, og hafa hundruðir fyrirtækja fyllt hann út og á sama tíma lágmarkað áreiti tengt málaflokknum þar sem áhugasamir getur einfaldlega sótt listann í gegnum Veru.
Flest fyrirtæki á íslandi falla ekki undir þær reglugerðir sem mest hefur verið skrifað um (CSRD og Flokkunarreglugerðina). Það þýðir hinsvegar ekki að þessi málaflokkur sé í ólestri hjá þeim, þvert á móti. Því höfum við lagt okkurfram við að gefa þeim fyrirtækjum tækifæri á að koma sínum upplýsingum áfram færi á stærri vettvangi en þeim hefur áður staðið til boða í gegnum sjálfbærniviðmót okkar, Veru.
Umræðan um sjálfbærniupplýsingar fyrirtækja hefur snúist meira um magn þeirra og gæði í stað þess að hún snúist um ástæðuna fyrir því að þeim er aflað. Sannleikurinn er sá að losun gróðurhúsalofttegunda var í sögulegu hámarki árið 2022, um 54 milljarðar tonna af koldíoxíðígildum, um 30% jarðarbúahafa ekki aðgengi að hreinu neysluvatni, 13% einstaklinga eldra en 15 ára eru ólæsir og 10% jarðarbúa búa við vannæringu. Þarna er fjármálakerfið er í lykilstöðu til að bæta lífskjör og framtíð okkar. Það er mikilvægt að missa ekki sjónar á takmarkinu og glata okkur í umræðum um reglur og gögn. Við hjá Creditinfo viljum því halda áfram að stuðla að því að sjálfbærniupplýsingar um íslensk fyrirtæki séu bæði áreiðanleg og aðgengileg svo hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir í allra þágu.
Hrefna Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi
Reynir Smári Atlason, forstöðumaður sjálfbærni hjá Creditinfo
Grein Hrefnu og Reynis birtist upphaflega í Viðskiptablaðinu þann 23. október 2024