No items found.

Auknar kröfur um sjálfbærni

12.5.2022

Ljóst er að stóraukinn þrýstingur er að verða á fyrirtæki að veita ítarlegri upplýsingar um sjálfbærnistefnu og rekstur hennar. Það er ekki lengur nóg að segjast vera með og birta sjálfbærnistefnu heldur þurfa fyrirtæki að sýna fram á hvernig sú stefna er framkvæmd og hver árangurinn er. Metnaður í slíkri upplýsingagjöf stuðlar meðal annars að trausti á milli fyrirtækja og hagaðila líkt og birgja, lánveitenda og fjárfesta.

Creditinfo hefur fylgt þessari þróun eftir til að mynda með veitingu sérstakra hvatningarverðlauna til fyrirtækja sem þykja skara fram úr í sjálfbærni. Viðurkenningin hefur verið veitt í samstarfi við Festu, samtök fyrirtækja um sjálfbærni, og hefur verið tilkynnt um niðurstöðu í tengslum við val Creditinfo á því hvaða fyrirtæki teljast á meðal Framúrskarandi fyrirtækja.

Ströng skilyrði

Við val á Framúrskarandi fyrirtækjum er horft til þess að félögin séu stöðug fyrirtæki sem byggja rekstur sinn á sterkum stoðum og efla hag allra. Til þess að teljast framúrskarandi þurfa fyrirtækin að uppfylla ströng skilyrði sem eru listuð hér að neðan.

  • Fyrirtækið er í lánshæfisflokki 1-3
  • Ársreikningi skal skilað á réttum tíma lögum samkvæmt
  • Hefur skilað ársreikningi til RSK síðustu þrjú ár
  • Fyrirtækið er virkt samkvæmt skilgreiningu Creditinfo
  • Rekstrartekjur að lágmarki 50 milljónir króna síðustu þrjú ár
  • Framkvæmdarstjóri skráður í fyrirtækjaskrá RSK
  • Rekstrarhagnaður (EBIT) jákvæður síðustu þrjú ár
  • Ársniðurstaða jákvæð síðustu þrjú ár
  • Eiginfjárhlutfall a.m.k. 20% síðustu þrjú ár
  • Eignir að minnsta kosti 100 milljónir króna síðustu þrjú ár

Creditinfo hyggst halda uppteknum hætti en að auki verður nú gerð meiri krafa til fyrirtækja sem teljast stór á innlendum markaði þ.e. félög sem hafa meira en 10 milljarða í tekjur. Félögin þurfa að hafa svarað spurningarlista Creditinfo um sjálfbærni til að komast á lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki.

Spurningarlistinn inniheldur eftirfarandi spurningar en honum er hægt að svara með því að smella hér.

Umhverfismál:

  1. Hefur fyrirtækið sett sér umhverfisstefnu eða áætlun/markmið í umhverfismálum og mælir fyrirtækið kolefnisfótspor sitt?
  2. Hefur félagið fengið vottun í umhverfismálum?

Félagslegir þættir:

  1. Uppfyllir fyrirtækið ákvæði laga um kjarasamninga og réttindi starfsfólks?
  2. Hefur fyrirtækið innleitt mannréttindastefnu?
  3. Er fyrirtækið með jafnlaunastefnu eða markmið þess efnis?
  4. Hversu mörg stöðugildi er fyrirtækið með á ársgrundvelli?
  5. Hvert er kynjahlutfall í framkvæmdastjórn?
  6. Hver er kynjasamsetning starfsmanna innan fyrirtækisins?

Stjórnarhættir:

  1. Hefur fyrirtækið sett sér siðareglur?
  2. Hefur fyrirtækið sett sér sjálfbærnistefnu og birtir hana opinberlega?
  3. Sætir fyrirtækið opinberri rannsókn vegna starfsemi fyrirtækisins?
  4. Hefur stjórn fyrirtækisins sett sér stefnu varðandi góða stjórnarhætti?
  5. Hefur fyrirtækið sett sér formlega stefnu hvað varðar kröfur um sjálfbærni og/eða samfélagslega ábyrgð birgja (e. supplier code of conduct)?

Að auki er boðið upp á sérstakt svæði þar sem fyrirtæki geta deilt öðru efni sem tengist málaflokknum, til dæmis sjálfbærniskýrslu.

Hafi svör við þessum spurningum ekki borist fyrir birtingu listans sem áætluð er í lok október á þessu ári teljast fyrirtæki sem hafa tekjur yfir 10 milljörðum íslenskra króna ekki Framúrskarandi fyrirtæki jafnvel þótt önnur skilyrði hafi verið uppfyllt. Ástæðan fyrir þessu skrefi er að eðililegt þykir að gera meiri kröfur til leiðandi stórra fyrirtækja sem munu með sínu starfi verða hvatning til minni fyrirtækja til að fylgja sömu þróun.

Við hvetjum að sjálfsögðu öll fyrirtæki til að svara spurningum Creditinfo um sjálfbærni og tryggja þannig að á einum stað séu aðgengileg lykilgögn um fyrirtækið.

*Creditinfo áskilur sér rétt til að fjarlægja fyrirtæki tímabundið af lista, svo sem vegna opinberra rannsókna sem geta haft stórfelld áhrif á fyrirtækið.

Deila efni:

Fréttabréf Creditinfo

Fáðu nýjustu fréttir af lausnum og þjónustu Creditinfo í tölvupósti
Frábært! Þú ert núna skráð(ur) í fréttabréfið hjá Creditinfo
Úps, eitthvað fór úrskeiðis. Vinsamlegast reynið aftur með því að endurhlaða síðuna