Creditinfo er á meðal þeirra 130 fyrirtækja og opinberu aðila sem hljóta viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar árið 2024. Hana hljóta þeir þátttakendur sem hafa náð að jafna hlutfall kynja í efsta lagi í a.m.k. 40/60. Viðurkenningin er veitt árlega frá Félagi kvenna í atvinnulífinu (FKA).
Jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni unnið í samstarfi með Creditinfo, Deloitte, forsætisráðuneytinu, Pipar\TBWA, RÚV, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjóvá. Tilgangur verkefnisins er m.a. að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi með það að markmiði að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja a.m.k. 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi.
Jafnvægisvogin heldur úti mælaborði sem er ætlað að halda utan um tölfræðilegar upplýsingar um jafnrétti. Creditinfo er á meðal þeirra aðila sem veita gögn í mælaborðið. Í mælaborði Jafnvægisvogarinnar koma fram allar helstu upplýsingar um stöðu kynjanna í íslensku atvinnulífi, svo sem kynjahlutföll stofnenda fyrirtækja, framkvæmdastjóra og stjórna. Þar má einnig finna upplýsingar um kynjahlutföll við brautskráningar úr háskólum, stöðu kynjanna innan atvinnugreina og GemmuQ kynjakvarðann fyrir skráð félög á markaði. Í mælaborðinu sem að Creditinfo, Deloitte og Jafnvægisvogarráðið hafa þróað eru upplýsingarnar gerðar aðgengilegar á einfaldan og skýran hátt.