No items found.

Er afkoma veitingageirans að minnka?

26.9.2019

Afkoma fyrirtækja í veitingageiranum hefur farið ört batnandi á síðustu árum en útlit er fyrir að samdráttur hafi verið á rekstri þeirra á síðasta ári.

Frá árinu 2009 til ársins 2017 fjölgaði fyrirtækjum í veitingageiranum sem skiluðu ársreikningi um 49% úr 447 fyrirtækjum í 666. Þetta er hægt að sjá þegar rýnt er í ársreikningaskil fyrirtækja undir ISAT-flokknum „Veitingastaðir“ eða „Krár, kaffihús og dansstaðir o.þ.h“. Afkoma veitingageirans er að mörgu leyti tengd afkomu ferðaþjónustunnar og því má ætla að fjölgun og bætt afkoma veitingahúsa sé í takti við fjölgun ferðamanna síðustu ár.

Ljóst er þó að frá og með árinu 2018 og sérstaklega eftir fall WOW Air fyrr á þessu ári hefur ferðamönnum fækkað hér á landi og því líklegt að samdráttur verði hjá fyrirtækjum í veitingageiranum. Þótt áhrif falls WOW Air og fækkunar ferðamanna á árinu 2019 verða ekki að fullu ljós fyrr en ársreikningar fyrir árið 2019 berast árið 2020 þá er hægt að greina ýmislegt út frá þeim gögnum sem eru til staðar nú þegar.

27% veitingastaða hafa skilað ársreikningi 2018

Með því að rýna í alla ársreikninga sem hefur verið skilað undir ISAT-flokknum „veitingastaðir“ eða „Krár, kaffihús og dansstaðir o.þ.h“ er hægt að fá mynd af því hvernig þeim hefur vegnað á síðustu árum. Út frá þeim ársreikningum sem hefur verið skilað fyrir rekstrarárið 2018 er síðan hægt að álykta um rekstur þeirra á síðasta ári. Hér fyrir neðan er hægt að yfirlit yfir fjölda veitingastaða sem skiluðu ársreikningum frá árinu 2009 til ársins 2018. Aðeins hafa 177 fyrirtæki í áðurnefndum ISAT-flokkum skilað ársreikningi fyrir árið 2018 en það er um 27% fyrirtækja í sama flokki sem skiluðu ársreikningi árið áður.

Þróun fjölda ársreikninga hjá veitingastöðum

Stöðugt hlutfall fjölgunar og brottfalls

666 fyrirtæki í veitingageiranum skiluðu ársreikningi árið 2017. Af þeim voru 649 starfandi árið áður, 40 skiluðu sínum fyrsta ársreikningi það árið og 33 hættu starfsemi. Á myndinni hér fyrir neðan er hægt að sjá tölur um fjölgun og brottfall veitingastaða frá árinu 2010 til 2018. Þar sést að hlutfall nýrra og brottfelldra veitingastaða helst nokkuð stöðugt ár frá ári. Ekki er hægt að segja til með vissu hvernig niðurstöðurnar verða fyrir árið 2018 en miðað við fyrirliggjandi gögn má ætla að þróunin verði svipuð fyrir síðasta rekstrarár.

Þróun fjölda veitingastaða - súlurit

Sveiflukenndur rekstur

Rekstur veitingastaða er býsna sveiflukenndur líkt og sést á myndinni hér fyrir neðan. Í henni eru rekstrarniðurstöður þeirra fyrirtækja sem hafa skilað ársreikningi fyrir árið 2018 teknar saman. Þar má sjá að rekstrarhagnaður og EBITDA þessara fyrirtækja hefur aukist töluvert frá árinu 2009 en fer að minnka aftur árið 2018. Sambærilegar tölur fyrir öll ferðaþjónustufyrirtæki sýna svipaða mynd en nánar má lesa um afkomu þeirra síðustu ár hér.

Þróun EBITDA og rekstarhagnaður hjá félögum sem hafa skilað reikningi fyrir árið 2018 - súlurit

Fáir veitingastaðir á meðal Framúrskarandi fyrirtækja

Góð leið til að mæla stöðugleika atvinnugreinar er að skoða hlutfall þeirra af þeim fyrirtækjum sem teljast Framúrskarandi fyrirtæki. Creditinfo hefur síðustu tíu árin unnið árlega greiningu á rekstri íslenskra fyrirtækja og veitir þeim fyrirtækjum sem hafa sýnt fram á stöðugan og góðan rekstur viðurkenningu. Út frá rekstrarniðurstöðum ársins 2017 voru 865 fyrirtæki valin Framúrskarandi fyrirtæki árið 2018 eða um 2% allra virkra fyrirtækja á Íslandi. Af þeim voru aðeins 20 fyrirtæki í ofangreindum ISAT-flokkum eða um 2,3% allra framúrskarandi fyrirtækja. Sjá má á grafinu hér fyrir neðan að þeim hefur fjölgað nokkuð hægt frá upphafi og eru öllu færri en fyrirtæki í ferðaþjónustu, byggingargeiranum og sjávarútvegi svo dæmi séu tekin. Listinn yfir Framúrskarandi fyrirtæki árið 2019 verður birtur þann 23. október næstkomandi og þá verður hægt að sjá hvort félögum í veitingageiranum hafi fjölgað eða fækkað á listanum.

Hlutfall Framúrskarandi fyrirtækja


Deila efni:

Fréttabréf Creditinfo

Fáðu nýjustu fréttir af lausnum og þjónustu Creditinfo í tölvupósti
Frábært! Þú ert núna skráð(ur) í fréttabréfið hjá Creditinfo
Úps, eitthvað fór úrskeiðis. Vinsamlegast reynið aftur með því að endurhlaða síðuna