No items found.

Erum langt frá markmiði um jafnara kynjahlutfall

29.1.2021

Á síðasta ári voru konur einungis ráðnar framkvæmdastjórar í fjórðungi tilvika. Stórátak þarf til að markmið Jafnvægisvogarinnar náist. 

Að óbreyttu næst ekki markmið Jafnvægisvogarinnar um að árið 2027 verði kynjahlutfall að minnsta kosti 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi. Þetta er meðal þess sem lesa má út úr greiningu Creditinfo á ráðningum í framkvæmdastjórastöður fyrirtækja hér á landi síðustu ár. 

Jafnvægisvogin er samstarfsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), forsætisráðuneytisins, Sjóvá, Deloitte, Pipar/TBWA og Morgunblaðsins. Verkefninu var komið á fót árið 2017 og hefur það átt þátt í að styðja við fjölbreytileika og jafnvægi með auknum jöfnuði kynja í stjórnunarstöðum. 

Greiningin leiðir í ljós að á nýliðnu ári voru konur ráðnar í 25% tilfella nýráðninga í stöðu framkvæmdastjóra/forstjóra . Það er þó töluvert yfir meðaltali síðustu fimm ára sem er 20%. Konur eru í dag framkvæmdastjórar í um 18% virkra fyrirtækja (um 6.000 fyrirtæki), en einungis um 13% fyrirtækja ef horft er á rúmlega 1.000 tekjuhæstu fyrirtækin. 

Tafla 1. Núverandi hlutfall kvenna í framkvæmdastjórn rúmlega 1.000 tekjuhæstu fyrirtækjanna annars vegar og virkra fyrirtækja

„Vissulega er jákvætt að fleiri konur voru í fyrra ráðnar í stöðu framkvæmdastjóra en verið hefur að jafnaði en betur má ef duga skal “, segir Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo. „ Miðað við núverandi hlutfall kvenna í nýráðningum framkvæmdastjóra er ljóst að markmið Jafvægisvogarinnar um að konur séu að lágmarki 40% framkvæmdastjóra árið 2027 næst ekki. Mögulega er meira hvetjandi að einblína á að ná hlutfalli kvenna af nýráðningum upp í amk 50% í öllum geirum fyrir 2027. Þar geta stjórnendur haft áhrif strax og eru ekki að vinna upp í skuld fyrri tíma.“ 

Konur taka við af konum

Sé tekið mið af þróun síðustu 10 ára liggur fyrir að markmiðið næst ekki fyrr en árið 2061. Eigi hlutur kvenna í framkvæmdastjórastöðum að ná 40 prósentum fyrir tilsettan tíma þarf hlutfall kvenna af nýráðningum að verða á bilinu 58 til 70 prósent fram til ársins 2027.

Tafla 2. Hér má sjá hversu hátt hlutfall kvenna af nýráðnum framkvæmdastjórum þarf árlega að vera í hverri atvinnugrein  til þess að markmið Jafnvægisvogarinnar náist árið 2027. Til samanburðar má sjá hvert hlutfallið þarf að vera til að markmiðið náist síðar. 

Tölurnar leiða ýmislegt forvitnilegt í ljós svo sem að líklegra er að kona taki við framkvæmdastjórastarfinu hafi forveri hennar í starfi einnig verið kona. Eins ef horft er til framkvæmdastjóraskipta síðustu fimm ára að þá er kona líklegri til að taka við stöðunni af karli í fyrirtækjum í sérfræðivinnu (29%) en til dæmis í fjármála-, vátrygginga- og fasteignastarfsemi (18%). Í ferðaþjónustu og afþreyingu er hlutfallið 21%, 10% meðal framleiðslufyrirtækja og einungis 3% í landbúnaði, skógrækt og sjávarútvegi. 

Mynd 1. Kona er líklegri til að taka við af konu en karli.

Forsendur greiningarinnar 

Í greiningunni rýndum við kynjasamsetningu framkvæmdastjóra/forstjóra í íslenskum fyrirtækjum samkvæmt skráningu í Fyrirtækjaskrá RSK. Lögð voru til grundvallar um 6.000 virk fyrirtæki með tekjur yfir 30 milljónum króna síðustu þrjú ár, að undanskildum eignarhaldsfélögum. Greiningin byggir svo að mestu á rúmlega 1.000 tekjuhæstu fyrirtækjunum úr þessum hópi, en þar er átt við virk fyrirtæki með að minnsta kosti 350 milljónir króna í tekjur síðastliðin þrjú ár. 

Horft var sérstaklega til þúsund tekjuhæstu fyrirtækjanna vegna þess að þau eru líklegri til að skrá framkvæmdastjóra og halda þeirri skráningu við. Hjá mörgum minni fyrirtækjum vantar skráningu á framkvæmdastjóra og eins má gera ráð fyrir að sami framkvæmdastjóri sé líklegri til að sitja lengi í minni fyrirtækjum, til dæmis ef meirihlutaeigendur eru tengdir fjölskylduböndum. 

Miðað er við að um 10% fyrirtækja skipti um framkvæmdastjóra á hverju ári en það hlutfall er meðaltal framkvæmdastjóraskipta hjá virkum fyrirtækjum síðustu 4 ár (miðað er við tilkynningar um framkvæmdastjóraskipti í Fyrirtækjaskrá RSK). 

Deila efni:

Fréttabréf Creditinfo

Fáðu nýjustu fréttir af lausnum og þjónustu Creditinfo í tölvupósti
Frábært! Þú ert núna skráð(ur) í fréttabréfið hjá Creditinfo
Úps, eitthvað fór úrskeiðis. Vinsamlegast reynið aftur með því að endurhlaða síðuna