No items found.

Framúrskarandi fyrirtæki 2018 í Eldborg Hörpu

16.11.2018

Creditinfo veitti framúrskarandi fyrirtækjum viðurkenningar í Hörpu 14. nóvember fyrir rekstrarárið 2017. Á listanum þessu sinni eru 865 fyrirtæki eða 2% allra skráðra fyrirtækja á Íslandi. Samherji er í efsta sæti listans líkt og á síðastliðnu ári og þar á eftir kemur Marel, Landsvirkjun og Alcoa Fjarðaál. Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir flutti ávarp og afhenti Nox Medical sérstök verðlaun fyrir nýsköpun og Eflu verkfræðistofu ehf. verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í samfélagsábyrgð.

Síðastliðin níu ár höfum við greint rekstur íslenskra fyrirtækja og birt lista yfir þau fyrirtæki sem teljast framúrskarandi. Stærð listans er tiltölulega óbreytt milli ára en fyrirtækjum fækkar um 2% frá fyrra ári. Áhugavert er þó að brottfall fyrirtækja af listanum frá fyrra ári er óvenju hátt, um það bil tvöfalt miðað við venjulegt ár. Engin ein skýring er á þessu brottfalli. Að hluta til má rekja það til hertra skilyrða en það er engu að síður hátt þó leiðrétt sé fyrir því. Þegar tölur úr rekstri fyrirtækja á listanum eru skoðaðar þá sést að hagnaður er að aukast hjá um 48% félaganna en eiginfjárhlutfall að batna hjá 58% þeirra. Sambærilegar tölur fyrir öll fyrirtæki í landinu er að hagnaður eykst hjá 46% en eiginfjárhlutfall batnar hjá 44%. Ef listinn er brotinn niður eftir starfsemi fyrirtækja þá er áberandi fjölgun félaga tengdri byggingastarfsemi á meðan flestir aðrir geirar standa í stað eða gefa eftir.

Í flokki meðalstórra fyrirtækja á listanum var Efnissala G.E. Jóhannssonar hf. efst, þar á eftir kom JTG ehf. og Keahótel voru í þriðja sæti. Í flokki minni fyrirtækja var Inmarsat Solutions ehf. efst á lista og þar á eftir komu Greiðslumiðlun ehf. og Jónatansson & Co. Lögfræðistofa ehf.

Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo, sagði í sínu erindi í Hörpu að fyrirtækin á lista Framúrskarandi fyrirtækja væru burðarásarnir í íslensku atvinnulífi og fyrirmynd annarra fyrirtækja. Hún talaði um að í ár fækki fyrirtækjum á listanum og að það sé visst merki um að hægjast sé á vextinum sem væri í raun eðlilegt eftir langt hagvaxtarskeið. Hún sagði ennfremur að samstarf atvinnulífsins og stjórnmálanna væri að ná vissu jafnvægi í hagkerfinu. „Það skiptir sköpum að Ísland sé samkeppnishæft í alþjóðlegu samhengi. Við þurfum fyrst og fremst að sýna ábyrgð. Við þurfum að fjárfesta í innviðum þegar vel gengur svo við getum staðið af okkur álag. Við þurfum að stunda skynsamlega áhættustýringu, axla ábyrgð á umhverfinu, samfélaginu og hvert öðru. Við þurfum að vera mannleg. En við þurfum líka að fjárfesta í framförum og vexti. Og hér er allt til alls. Við erum ekki nema um 350 þúsund. Við höfum tækifæri til að skara fram úr á svo mörgum sviðum; Menntun, umhverfismálum, nýsköpun, heilbrigði, hamingju og í að hlúa að þeim sem minna mega sín. Við þurfum að hugsa fram í tímann, hafa langtímastefnu og við þurfum öll að vinna saman að settu marki,“ sagði Brynja ennfremur.

[vimeo 301194256 w=800 h=449]

EFLA - Hvatningarverðlaun fyrir samfélagsábyrgð Framúrskarandi fyrirtækja 2018 from Creditinfo Ísland on Vimeo.

Efla ehf. - Hvatningarverðlaun fyrir framúrskarandi samfélagsábyrgð í samstarfi við Festu
Efla ehf. hlaut sérstök verðlaun fyrir framúrskarandi samfélagsábyrgð fyrirtækja. Dómnefndina skipuðu sérfræðingar á sviði samfélagsábyrgðar. Í umsögn dómnefndar kemur fram að samfélagsábyrgð fyrirtækisins sé samofin rekstrinum og stefnu þess. Mikilvægur þáttur í skilgreindu hlutverki félagsins sé að koma fram með lausnir sem stuðla að framförum og efla samfélagið. Telja má fyrirtækið til brautryðjanda á Íslandi á sviði vistferilsgreininga og útreikninga á vistspori og kolefnisspori fyrir vörur og þjónustu. Ávallt er tekið tillit til umhverfis- og öryggismála og annarra samfélagslegra sjónarmiða í verkefnum fyrirtækisins. Félagið hefur fylgt efir alþjóðlegum viðmiðum og sáttmálum til að hraða breytingum í átt að aukinni sjálfbærni í rekstri og þjónustu. Efla gefur árlega út samfélagsskýrslu ásamt grænu bókhaldi og hefur sett sér metnaðarfull skammtíma- og langtímamarkmið á þessu sviði. Þrátt fyrir aukna óbeina losun gróðurhúsalofttegunda á milli ára, vegna aukins umfangs verkefna, náði fyrirtækið að minnka beina losun sína um 41% á milli ára miðað við stöðugildi og öll losun er kolefnisjöfnuð þannig að fyrirtækið er í dag kolefnishlutlaust. Félagið tókst með með samstilltu átaki starfsmanna að minnka notkun pappírs á hvert stöðugildi um 20% á milli ára, heildarmagn óflokkaðs úrgangs vegna rekstrar í höfuðstöðvum minnkaði um 50% og endurvinnsluhlutfall er komið upp í 80%. Fyrirtækið er öflugt í samfélaginu, m.a. með því að styðja við rannsóknir, miðla þekkingu og efla starfsfólk í nýsköpun og þróun.

[vimeo 300985706 w=800 h=451]

NOX Medical - Nýsköpunarverðlaun Framúrskarandi fyrirtæki 2018 from Creditinfo Ísland on Vimeo.

Nox Medical - Hvatningarverðlaun fyrir framúrskarandi nýsköpun í samstarfi við Icelandic Startups
Það var mat dómnefndar að
Nox Medical sé einstakt dæmi um öflugt nýsköpunarstarf sem byggir fyrst og fremst á hugviti og þekkingu. Hátæknifyrirtækið Nox Medical þróar og selur byltingarkenndar lausnir á sviði svefnrannsókna. Í umsögn dómnefndar segir að félagið sé í fararbroddi á sínu sviði og yfir ein milljón manna um allan heim fái greiningu á svefnvanda sínum þar sem lækningatæki Nox Medical eru notuð. Fyrirtækið starfræki sérstakt rannsóknarteymi til þess að vinna að framþróun svefnmælitækninnar í nánu samstarfi við vísindamenn m.a. með svefnrannsóknardeild Landspítala – Háskólasjúkrahúss, Harvard-háskóla í Boston, Stanford-háskóla í Kaliforníu og Imperial College í London. Uppgangur fyrirtækisins hefur verið hraður og tífaldaðist velta þess á nokkrum árum og er komin í um 2 milljarða króna. 99,6% af tekjum fyrirtækisins koma erlendis frá þar sem þeirra helstu markaðir eru Bandaríkin, Evrópa og Asía.

Við óskum Framúrskarandi fyrirtækjum til hamingju með árangurinn og þökkum ykkur komuna í Eldborg.

  • Viðskiptavefur mbl.is og Creditinfo gáfu út glæsilegan undirvef viðskiptablaðs mbl.is með listanum og viðtölum úr 96 síðna sérblaði Morgunblaðsins um Framúrskarandi fyrirtæki 2018. Vefinn má sjá hér.
  • Upptöku af viðburðinum í heild sinni má nálgast hér.
  • Myndir af myndavegg eru hér.

[vimeo 301192782 w=800 h=450]

Framúrskarandi fyrirtæki 2018 - Takk fyrir komuna from Creditinfo Ísland on Vimeo.

Deila efni:

Fréttabréf Creditinfo

Fáðu nýjustu fréttir af lausnum og þjónustu Creditinfo í tölvupósti
Frábært! Þú ert núna skráð(ur) í fréttabréfið hjá Creditinfo
Úps, eitthvað fór úrskeiðis. Vinsamlegast reynið aftur með því að endurhlaða síðuna