No items found.

Kórónaveiran og lánshæfismat

13.3.2020

Þessa dagana er mikil óvissa í þjóðfélaginu tengd kórónaveirunni (COVID-19). Áhrifin eru bæði persónuleg sem og efnahagsleg og því er eðlilegt að einhverjir spyrji sig hver áhrifin verða á greiðslugetu fyrirtækja.

Mjög líklegt verður að teljast að vanskil muni aukast en erfitt er að spá fyrir um hve mikil aukningin verður og hvaða fyrirtæki eða atvinnugeirar verða verst úti. Ýmsar ástæður gera allar spár erfiðar og þar má meðal annars nefna að óvíst er hversu lengi ástandið varir og hversu yfirgripsmiklar efnahagsráðstafanir íslenskra stjórnvalda verða. Enn fremur fer niðurstaðan að miklu leyti eftir því hvernig aðrar þjóðir bregðast við og svo því hvort áhrifin eru varanleg eða hvort um frestunaraðgerðir neytenda er að ræða, þ.e. er verið að fresta viðburðum, innkaupum og ferðalögum þar til veiran er gengin yfir eða er verið að hætta við.

Lánshæfismat og vanskil á óvissutímum

Lánshæfismat Creditinfo raðar fyrirtækjum í flokka eftir því hversu líklegt er að fyrirtækin lendi í vanskilum á næstu 12 mánuðum. Myndin að neðan sýnir lánshæfismat fyrirtækja þann 1.1.2019 (súlur) og hlutfall þeirra sem skráð var á vanskilaskrá á árinu 2019 (lína).

Í upphafi ársins 2019 voru 3.990 félög í besta lánshæfisflokknum, flokki 1, og aðeins 9 þeirra (0,23%) fóru inn á vanskilaskrá á meðan 254 félög voru í lakasta lánshæfisflokknum, flokki 10, og 174 þeirra fóru í vanskil (68,5%).

Reynsla Creditinfo og annarra fjárhagsstofa af óvissuástandi eins og því sem ríkir núna er að vanskil muni aukast en röðun í áhættuflokka haldi sér áfram í stórum dráttum. Það þýðir að félög sem voru öruggari skuldarar fyrir óvissuástandið eru áfram öruggari í óvissuástandinu. Vanskilin verða mögulega eins og hliðrun eigi sér stað á bláu línunni, þ.e. vanskil í flokki 1 verða kannski svipuð og þau voru í flokki 2 og vanskil í flokki 7 svipuð og þau voru í flokki 8. Vegna efnahagslegrar óvissu er þó mjög erfitt að meta raunverulegar líkur á vanskilum og því höfum við tekið mat á þeim út úr lánshæfismati Creditinfo.

Ástæður þess að röðunin er líkleg til að halda sér er sú að lánshæfismatið byggir á yfirgripsmiklum upplýsingum um félögin, þ.á.m. fjárhagsupplýsingum og upplýsingum um fyrri vanskil. Félög sem eru fjárhagslega sterk og hafa ekki lent í vanskilum áður eru betur í stakk búin til að takast á við óvissuástand en þau sem voru fjárhagslega tæp fyrir eða hafa sögu um fyrri vanskil því slíkt gefur merki um sveiflukenndan, og þar með áhættusamari rekstur.

Hér er hægt að nálgast nánari upplýsingar um lánshæfismat Creditinfo.

Ekki hika við að hafa samband við okkur ef þú hefur spurningar eða athugasemdir um vörur og þjónustu Creditinfo.

Deila efni:

Fréttabréf Creditinfo

Fáðu nýjustu fréttir af lausnum og þjónustu Creditinfo í tölvupósti
Frábært! Þú ert núna skráð(ur) í fréttabréfið hjá Creditinfo
Úps, eitthvað fór úrskeiðis. Vinsamlegast reynið aftur með því að endurhlaða síðuna