Greiningar

Kynjahlutföll í íslensku atvinnulífi: Hvað breytist?

28.12.2022

Mikil og þörf umræða hefur átt sér stað á undanförnum árum um hlutfall kvenna í stjórnum og framkvæmdastjórnum íslenskra fyrirtækja. Hallað hefur á konur í stjórnunarstörfum á Íslandi en hlutfall þeirra í stjórnum og framkvæmdastjórnum íslenskra fyrirtækja hefur aukist hægt á síðastliðnum árum.

Í nýlegu erindi Dr. Gunnars Gunnarssonar, forstöðumanns Greiningar og ráðgjafar hjá Creditinfo, á morgunfundi IcelandSIF samtakanna, fór hann yfir kynjahlutföll stjórnenda íslenskra fyrirtækja og sýndi fram á hvernig best er að mæla árangur í kynjahlutföllum stjórnenda. Einnig fór hann yfir áður óbirta tölfræði um vanskilahlutföll íslenskra fyrirtækja eftir kynjum stjórnenda. Hér verður farið yfir helstu atriði úr erindi Gunnars.

Kynjahlutföll stjórnarmanna íslenskra fyrirtækja

Í greiningu Gunnars kom fram að hlutfall kvenna í stjórnum íslenskra fyrirtækja hefur hægt og bítandi verið á uppleið frá árinu 2006. Sé litið til kynjahlutfalls í stjórnum allra íslenskra fyrirtækja sést að hlutur kvenna hefur aukist úr 20% árið 2006 í um 25% árið 2021.

1. september árið 2013 tóku ný lög gildi um kynjakvóta í stjórnum íslenskra fyrirtækja. Þau lög ná utan um fyrirtæki með fleiri en 50 starfsmenn. Séu fyrirtækin flokkuð eftir stærð sést glögglega að frá og með árinu 2011 hækkar hlutfall kvenna skarpt í stórum fyrirtækjum, úr um 19% árið 2011 og yfir 30% frá árinu 2017. Þessi munur skýrist líklega einna helst af lögum um kynjakvóta.

Ef litið er sérstaklega á þau fyrirtæki sem hafa fleiri en 50 starfsmenn, þ.e. fyrirtækin sem lögin um kynjakvóta ná til, má sjá að hlutfall kvenna í stjórnum fer úr 15% árið 2006 yfir í 37% á árinu 2022. En hvernig stendur á því að hlutfallið er enn undir 40% þegar lög um kynjakvóta kveða á um hærra hlutfall kvenna? Ástæðan er sú að stór hluti þessara fyrirtækja er aðeins með 3 stjórnarmeðlimi og er heimilt lögum samkvæmt að hafa tvo karlmenn á móti einni konu í stjórn.

Kynjahlutföll framkvæmdastjóra íslenskra fyrirtækja

Þegar litið er til hlutfalls kvenna sem framkvæmdastjóra íslenskra fyrirtækja horfir annað við. Þar sést glögglega að hlutfall kvenkyns framkvæmdastjóra lækkar með stærð fyrirtækja​. Á myndinni hér fyrir neðan sést hvernig hlutfallið er miðað við rekstrartekjur upp á 10-50 milljónir króna, 50-500 milljónir króna og svo hjá fyrirtækjum með rekstrartekjur yfir 500 milljónir króna á ársrgrundvelli. Hlutfall kvenna af framkvæmdastjórum er 19% hjá þeim minnstu en aðeins um 11% hjá þeim stærstu.

Sé litið til hlutfallana niður á atvinnugreinar sést skýr munur á hlutfalli kvenkyns framkvæmdastjóra. Hlutfallið er hæst í greininni „Félagasamtök og önnur þjónustustarfsemi“ eða um 49%, næsthæst í „Fræðslustarfsemi“, eða um 34% en lægst í „Byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð“ eða um 6%. Innan flokksins „Félagasamtök og önnur þjónustustarfsemi“ má m.a. finna starfsemi hárgreiðslustofa, nuddstofa og snyrtistofa.

Hvernig mælum við árangur?

Ljóst er að mikið verk er fram undan við að jafna hlut kvenna í stjórnunarstöðum. Þegar horft er til árangursmælikvarða getur reynst erfitt að notast við heildarhlutfall kvenna á meðal framkvæmdastjóra hverju sinni. Ástæðan er meðal annars sú að framkvæmdastjórar sitja oft lengi í starfi og því erfitt að merkja framfarir. Hægt er að fá skarpari sýn á stöðu mála með því að horfa sérstaklega til framkvæmdastjóraskipta og sjá þannig hversu hátt hlutfall kvenna er á meðal nýrra framkvæmdastjóra fyrirtækja.

Því miður sýna þær tölur ekki fram á miklar breytingar á hlutfalli kvenna frá árinu 2010 en þó má merkja að hlutfall kvenna af nýráðnum framkvæmdastjórum er á mjög hægri uppleið. Þegar litið er til þess sérstaklega hvaða kyn tekur við af hvaða kyni sést að konur eru líklegri til að taka við af konum. Útlit er fyrir að það taki langan tíma að auka hlut kvenna á meðal framkvæmdastjóra íslenskra fyrirtækja þar sem framkvæmdastjóraskipti eru ekki tíð. Aðeins um 12% fyrirtækja höfðu t.d. skipt um framkvæmdastjóra árið 2022.

Kynjasamsetningin er þó öðruvísi þegar kemur að nýjum aðilum í stjórnum fyrirtækja. Þar var hlutfall kvenna 28% frá mars árið 2020 til júlí árið 2021. Árin tvö á undan var hlutfallið aðeins lægra. Líkt og með framkvæmdastjóraskipti þá eru stjórnarskipti ekki heldur tíð á meðal íslenskra fyrirtækja.

Vanskilatíðni og kynjahlutföll

En eru fyrirtæki öðruvísi rekin undir stjórn kvenna eða karla? Ýmsar rannsóknir hafa verið framkvæmdar til að kanna þennan mun en fáar hafa skoðað sérstaklega vanskilatíðni fyrirtækja út frá því hvaða kyn er við stjórnvölinn. Á myndinni hér fyrir neðan sést að vanskil fyrirtækja eru umtalsvert lægri hjá félögum þar sem kona er við stjórnvölinn. Á tímabilinu mars 2019 til mars 2020 fóru tæplega 5% íslenskra fyrirtækja undir stjórn karla í vanskil á meðan hlutfallið var 3,5% hjá fyrirtækjum reknum af konum.

Ýmsar ástæður gætu verið fyrir þessum mun sem gæti skýrst af öðrum breytum en kyni. Hægt er að skoða hvort munurinn gæti legið í stærð fyrirtækja en eins og dæmin hér fyrir ofan sýndu þá eru karlar í meirihluta á meðal framkvæmdastjóra stórra fyrirtækja.

Sé vanskilatíðnin brotin niður eftir stærð fyrirtækja sést að fyrirtæki með kvenkyns framkvæmdastjóra fara síður í vanskil hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Ekki er þó hægt að sjá marktækan mun á vanskilum tekjuhæstu fyrirtækjanna eftir kyni framkvæmdastjóra.​ Munurinn á vanskilatíðni útskýrist því ekki út frá stærð fyrirtækja.

En hvað með atvinnugreinar? Eins og rætt var um í öðru dæmi þá er mikill munur á kynjahlutföllum framkvæmdastjóra eftir atvinnugreinum. En þegar vanskilatíðni fyrirtækja er brotin niður eftir atvinnugreinum og kyni er ekki að sjá að munurinn á vanskilatíðninni á meðal karlkyns og kvenkyns framkvæmdastjóra útskýrist með starfsemi fyrirtækjanna.

Þar sést að fyrirtæki með kvenkyns framkvæmdastjóra fara síður í vanskil í öllum atvinnugreinum nema „Landbúnaði, skógrækt og fiskveiðum“ og „Heilbrigðis- og félagsþjónustu“​.

Greining á vanskilahlutfalli fyrirtækja eftir kynjasamsetningu stjórnar leiðir í ljós að vanskilahlutfall fyrirtækja er hæst hjá fyrirtækjum sem hafa einsleita stjórn, þá annað hvort aðeins konur eða aðeins karla í stjórn. Blandaðar stjórnir, eins og sést á myndinni hér fyrir neðan, eru með lægsta vanskilahlutfallið.

Vert er að taka fram að greiningar þessar á vanskilahlutfalli íslenskra fyrirtækja út frá kynjahlutfalli eru unnar upp úr vanskilaskrá Creditinfo. Allar mögulegar skýribreytur hafa ekki verið kannaðar að fullu en slík greining væri tilvalið rannsóknarverkefni fyrir háskólasamfélagið.

Deila efni:

Fréttabréf Creditinfo

Fáðu nýjustu fréttir af lausnum og þjónustu Creditinfo í tölvupósti
Frábært! Þú ert núna skráð(ur) í fréttabréfið hjá Creditinfo
Úps, eitthvað fór úrskeiðis. Vinsamlegast reynið aftur með því að endurhlaða síðuna