Fréttir af Creditinfo
Fréttir
Greiningar
Blogg

Kynjakvóti í stjórnum íslenskra fyrirtækja

18.3.2024

Dr. Gunnar Gunnarsson, forstöðumaður Greiningar og ráðgjafar hjá Creditinfo, hélt fyrirlestur um áhrif laga um kynjakvóta í stjórnum íslenskra fyrirtækja á ráðstefnu hjá Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands 14. mars síðastliðinn. Hér er að finna samantekt á erindi Gunnars.

Kynjakvóti í stjórnum fyrirtækja

Árið 2013 tóku í gildi ný lög um kynjakvóta í stjórnum íslenskra fyrirtækja sem ná utan um fyrirtæki með fleiri en 50 starfsmenn, eða rúmlega 300 félög. Með lögunum er ætlað að jafna hlut kvenna og karla í stjórnum íslenskra fyrirtækja. Von margra voru einnig að smitáhrif yrðu af lögunum yfir til smærri fyrirtækja og eins áhrif á kynjahlutföll á meðal framkvæmdastjóra fyrirtækja. En hvaða áhrif höfðu lögin á kynjahlutföll stjórnarmanna í íslensku atvinnulífi rúmum tíu árum eftir að lögin tóku gildi?

Í lögunum er kveðið á um að þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír skal tryggt að hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 40%. Á töflunni hér fyrir neðan sést yfirlit yfir fjöldi félaga eftir fjölda stjórnarmanna og hvert leyfilegt lágmark kvenna er. Þegar litið er heilt yfir á stöðuna eins og hún er í dag sést að flestar stjórnir teljast litlar, eða með 1-3 stjórnarmenn

Þróun kynjahlutfalla

Ef við skoðum þróunina á hlutfalli kvenna í stjórnum fyrirtækja sem lögin ná utan um þá sést að skýr aukning hefur orðið á hlutfalli kvenna í stjórnum – þ.e. frá rúmlega 20% þegar lögin voru sett yfir í 35% í dag. Ástæða þess að hlutfallið er ekki 40% eins og lögin kveða á um er sú að margar stjórnir eru með einn eða þrjá meðlimi eins og kom fram hér fyrir ofan.

Við sjáum einnig smitáhrif yfir í stöðu æðsta stjórnenda fyrirtækja, þ.e. hlutfall kvenna sem framkvæmdastjóri hjá þessum fyrirtækjum hefur farið úr 10% yfir í um 15% á sama tímabili. Þegar litið er hins vegar til smærri fyrirtækja má sjá að breytingarnar eru mun hægari, eins og sést á myndinni hér fyrir neðan.

Þátttaka kvenna í stjórnum

Það er algeng fullyrðing á markaðnum að “það séu alltaf sömu konurnar sem eru fengnar í þessar stjórnir” og ákveðið var að skoða hvort sú fullyrðing stenst skoðun? Í töflunni hér fyrir neðan er yfirlit yfir hlutfall kvenna og karla sem sitja í fleiri en einni stjórn stórs félags. Niðurstaðan sýnir að dreifingin er sú sama hvort um sé að ræða konur eða karla. Það þýðir að konur og karlar eru “endurnýtt” nákvæmlega jafn mikið í stjórnum stórra félaga.

Eru öll stór félög að fara að lögum um kynjakvóta í stjórnum?

Þegar við skoðum nákvæmlega hversu mörg fyrirtæki fara að lögum um kynjakvóta þarf að hugsa að ýmsum ákvæðum laganna sem taka tillit til þátta eins og samsetningu stjórnar og varastjórnar auk fleiri þátta sem gera það að verkum að ekki er einungis hægt að líta á kynjahlutföll stjórnarmanna í aðalstjórn félagsins. 77% fyrirtækja ná að uppfylla „alveg“ lögin, þ.e. samsetning stjórnar er í lagi, samsetning varastjórnar er í lagi og heildarsamsetningin er í lagi. Á hinn bóginn sést að hjá um 12% félaga er samsetning aðalstjórnarinnar ekki í samræmi við lögin Þá má gera ráð fyrir út frá þessum útreikningum að á bilinu 12-23% fyrirtækja eru ekki að fylgja lögunum, eftir því hversu „hart“ þau eru túlkuð, með þeim fyrirvara að þau séu að framfylgja þeim miðað við þær undanþágur sem fyrir liggja í lögunum.

Deila efni:

Fréttabréf Creditinfo

Fáðu nýjustu fréttir af lausnum og þjónustu Creditinfo í tölvupósti
Frábært! Þú ert núna skráð(ur) í fréttabréfið hjá Creditinfo
Úps, eitthvað fór úrskeiðis. Vinsamlegast reynið aftur með því að endurhlaða síðuna