No items found.

Leiðir að betri fjölmiðlaumfjöllun

10.10.2018

Kári Finnsson viðskiptastjóri hjá Creditinfo skrifar um leiðir til að hafa áhrif á fjölmiðlaumfjöllun í Markaðnum í dag.

Fátt er fyrirtækjum verðmætara en jákvæð ímynd þeirra í fjölmiðlum. Jákvæð fjölmiðlaumfjöllun leiðir ekki einungis af sér aukin viðskipti heldur hvetur hún einnig starfsfólk áfram til góðra verka. Að sama skapi getur neikvæð fjölmiðlaumfjöllun haft mjög skaðleg áhrif, bæði á ímynd og á rekstur fyrirtækja. 

Það skiptir því stjórnendur miklu máli að fylgjast vel með hvernig fjölmiðlar fjalla um þeirra fyrirtæki, samkeppnisaðila og það sem er á efst á baugi í atvinnugreininni þeirra. Stjórnendur og starfsfólk þurfa að vakta fjölmiðlaumfjöllun gaumgæfilega til að geta haft yfirsýn yfir þá ímynd sem fyrirtæki þeirra hefur út á við og eins til þess að geta brugðist við breyttum aðstæðum á markaði. 

Það gleymist oft að fjölmiðlaumfjöllun getur verið tilfinningamál og þess vegna er gott að geta séð nákvæmlega hvernig umfjöllunin hefur verið í stað þess að reiða sig á hvernig umtalið er í kaffistofunni hverju sinni. Það er t.d. auðvelt að ofmeta fjölda neikvæðra frétta og vanmeta fjölda jákvæðra frétta ef maður sér það ekki svart á hvítu hvernig umfjöllunin skiptist.

Er hægt að stýra fjölmiðlaumfjöllun?

En hvað geta stjórnendur gert til að bæta fjölmiðlaumfjöllun um sitt fyrirtæki? Er yfir höfuð hægt að stýra því hvernig fjölmiðlar fjalla um fyrirtæki? Sem betur fer starfa fjölmiðlar sjálfstætt og stjórnendur fyrirtækja geta ekki pantað jákvæða fjölmiðlaumfjöllun eftir hentugleika. Þeir geta hins vegar gert ýmislegt til að auka líkurnar á því að fjölmiðlar líti á þá jákvæðum augum. 

Besta leiðin til að tryggja jákvæða umfjöllun er einfaldlega vandaður rekstur. Það er þegar fyrirtæki hugsa bæði vel um eigin afkomu og nærumhverfið með samfélagslega ábyrgum rekstri. Góð verk geta oft talað sínu máli en það getur hjálpað til að láta fjölmiðla vita af því þegar reksturinn gengur vel og eins þegar mikilvægir samningar eru handsalaðir.

Fjölmiðlum er umhugað um að fá ekki bara áhugaverðar upplýsingar upp á yfirborðið heldur þurfa þær upplýsingar einnig að vera skjótfengar og nákvæmar. Stjórnendur og/eða aðrir talsmenn fyrirtækja sem eru fljótir að taka upplýsta afstöðu og tjá sig með öruggum hætti um málefni líðandi stundar eru vinsælir viðmælendur og stuðla þannig að jákvæðri ímynd fyrirtækisins í fjölmiðlum. Svo má ekki gleyma því að í langflestum fyrirtækjum leynist verðmæt sérfræðiþekking og það er mikilvægt að breiða þá þekkingu út í gegnum fjölmiðla eins mikið og kostur er.

Neikvæð umfjöllun óumflýjanleg

Það þekkja það allir stjórnendur fyrirtækja sem eru mikið í fréttum að það er erfitt að koma í veg fyrir neikvæða umfjöllun í fjölmiðlum. Slíkt getur komið fyrir öll fyrirtæki, líka þau sem eru sjaldan í sviðsljósinu, og því er mikilvægt fyrir alla stjórnendur að vera meðvitaðir um hvernig bregðast á við þegar neikvæðar fréttir berast um þeirra fyrirtæki. 

Stjórnendur sem eru fljótir að svara fyrir sig og gera það með skýrum og skilmerkilegum hætti eru mun líklegri til að tryggja jákvæða ímynd í fjölmiðlum þegar fram í sækir. Skýr skilaboð frá stjórnendum eru sterkustu vopnin gegn neikvæðum fréttaflutningi. 

Eins og áður sagði þá er fjölmiðlaumfjöllun ekki eitthvað sem stjórnendur fyrirtækja geta stýrt frá byrjun til enda. Þeir geta hins vegar stuðlað að jákvæðri ímynd með því að vera vakandi fyrir fjölmiðlaumfjöllun, stýra fyrirtæki sínu með ábyrgum hætti og með því að taka af skarið og tjá sig um málefni líðandi stundar af öryggi og nákvæmni.

Kári Finnsson

Viðskiptastjóri hjá Creditinfo

Greinina má einnig lesa á vef Fréttablaðsins

Vilt þú vakta umfjöllun fjölmiðla um þitt fyrirtæki? Fjölmiðlavakt Creditinfo vaktar umfjöllun í útvarpi, sjónvarpi, blöðum og netmiðlum og er því verðmætt tól sem heldur þér og þínu starfsfólki upplýstu um fréttir sem skipta ykkur máli.

Deila efni:

Fréttabréf Creditinfo

Fáðu nýjustu fréttir af lausnum og þjónustu Creditinfo í tölvupósti
Frábært! Þú ert núna skráð(ur) í fréttabréfið hjá Creditinfo
Úps, eitthvað fór úrskeiðis. Vinsamlegast reynið aftur með því að endurhlaða síðuna