No items found.

Men&Mice hlýtur verðlaun fyrir framúrskarandi nýsköpun

28.10.2019

Árlega veitir Creditinfo fyrirtækjum sérstök hvatningarverðlaun fyrir framúrskarandi samfélagsábyrgð og framúrskarandi nýsköpun. Men&Mice hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi nýsköpun árið 2019.

Creditinfo veitir verðlaunin í þriðja sinn á sama tíma og listi yfir Framúrskarandi fyrirtæki 2019 var gerður opinber 23. október síðastliðinn. Markmið viðurkenningarinnar er að vekja athygli á mikilvægi nýsköpunar hjá rótgrónum fyrirtækjum. Við val á framúrskarandi nýsköpunarfyrirtæki ársins er m.a. horft til skráðra einkaleyfa, samstarfs við háskóla og rannsóknarstofnanir og þess hvort fyrirtækið afli útflutningstekna sem byggja á íslensku hugviti.

Men&Mice sérhæfir sig í þróun og sölu hugbúnaðarlausna fyrir alþjóðleg stórfyrirtæki og stofnanir sem reka flókna netinnviði. Um 70% af tekjum fyrirtækisins koma frá Bandaríkjunum og 29% frá Evrópu. Í hópi viðskiptavina þeirra eru fyrirtæki á borð við Microsoft, Xerox, IMF, FedEx, Unilever, Nestle og Harvard Business School.

Hafa fundið verðmæta syllu

Dómnefnd var skipuð í samstarfi við Icelandic Startups, sem vann úr fjölda tilnefninga um fyrirtæki sem áttu það sameiginlegt að vera á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki árið 2019 og leggja mikla áherslu á nýsköpun í sinni starfsemi. Í rökstuðningi dómnefndar kemur m.a. fram að útflutningstekjur Íslands þurfa að aukast um 1.300 milljarða á næstu 20 árum til að viðhalda 3% hagvexti. „Men&Mice hefur fundið verðmæta syllu og nýtt sérhæfða þekkingu til að þjóna vel skilgreindum markhópi á alþjóðlegri grundu, en talið er að þessi markaður verði metinn á yfir 2 milljarða bandaríkjadala á innan við fimm árum. Allt þróunarstarf fyrirtækisins fer fram hér á landi en 99% af veltu fyrirtækisins kemur erlendis frá.”

Leggja áherslu á frumlega hugsun

„Frumleg hugsun og sköpun er eitthvað sem við hjá Men & Mice leggjum mikið upp úr,“ segir Magnús E. Björnsson, forstjóri Men&Mice. „Við erum snortin og stolt að fá verðlaun fyrir nýsköpun á þessum tímapunkti. Umhverfi félagsins tekur stöðugum breytingum og fyrirtækið stendur frammi fyrir nýjum sóknarfærum á tímum hraðra tæknibreytinga. Varan okkar er einstök á alþjóðavísu og byggð á traustum grunni. Teymið okkar innanhúss er sterkt sem gefur okkur byr undir báða vængi til að sækja fram með þeim hætti sem við ætlum okkur næstu árin.”

Um hvatningarverðlaunin

Hvatningarverðlaun um framúrskarandi nýsköpun eru veitt í samstarfi við Icelandic Startups og í dómnefnd sátu Hjálmar Gíslason stofnandi og framkvæmdastjóri Grid, Ragnheiður H. Magnúsdóttir, forstöðumaður hjá Veitum og Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups. Dómnefnd vann úr lista yfir tilnefnd fyrirtæki sem voru á lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki árið 2019 og sýndu fram á skýra stefnu í nýsköpun í sinni starfsemi. Í ágúst gafst almenningi kostur á að tilnefna fyrirtæki sem sköruðu fram úr í nýsköpun og gat dómnefnd því valið úr fjölda tilnefndra fyrirtækja.

Deila efni:

Fréttabréf Creditinfo

Fáðu nýjustu fréttir af lausnum og þjónustu Creditinfo í tölvupósti
Frábært! Þú ert núna skráð(ur) í fréttabréfið hjá Creditinfo
Úps, eitthvað fór úrskeiðis. Vinsamlegast reynið aftur með því að endurhlaða síðuna