No items found.

Mun fleiri fyrirtæki skila ársreikningi á réttum tíma

24.2.2020

Mun stærra hlutfall fyrirtækja skilar ársreikningi á réttum tíma. Þetta kemur fram í gögnum Creditinfo um skil ársreikninga til Ríkisskattsjóra á síðustu tíu árum.

96% fyrirtækja skiluðu ársreikningi fyrir lok september 2019 en til samanburðar voru aðeins um 56% fyrirtækja búin að skila ársreikningi á sama árstíma árið 2015. Myndin hér fyrir neðan sýnir hvernig hlutfall fyrirtækja sem skiluðu ársreikningi fyrir lok september hefur þróast frá árinu 2009 til 2010.

Samkvæmt lögum um ársreikninga ber félögum að skila ársreikningi eigi síðar en átta mánuðum eftir lok reikningsárs. Þar sem flest félög hafa uppgjörstímabil frá janúar til desember er skilafresturinn í flestum tilvikum 31. ágúst á hverju ári.

Sektarákvæði og hnappsreikningar

Ef litið er lengra aftur í tímann sést að ársreikningaskil urðu mun tímanlegri á árinu 2017 þegar skila átti ársreikningi fyrir rekstrarárið 2016. Ýmsar ástæður má telja fyrir því en ein stærsta líklega ástæðan er að Ríkisskattstjóri herti á sektarákvæðum til fyrirtækja sem skila ársreikningum of seint. Því til viðbótar var örfélögum gert kleift að skila rafrænum ársreikningi út frá innsendu skattframtali, svokölluðum hnappsreikningum.

Á myndinni hér fyrir neðan sést hvernig skil á hnappsreikningum hafa þróast frá skilaárinu 2017 til ársins 2019. Á árinu 2019 skiluðu rúmlega 15.000 örfélög ársreikning út frá skattframtali en það er um 30% fleiri reikningar en árið áður. Þetta jafngildir rúmlega 40% af öllum innsendum ársreikningum á árinu 2019.

Á myndinni hér fyrir neðan sést hvernig þróunin hefur verið á uppsöfnuðum skilum ársreikninga frá árinu 2014 til ársins 2019. Hafa ber í huga að hvert ár sýnir skil á ársreikningi fyrir rekstrarárið árið áður.

Í lok síðasta árs voru samtals 35.862 félög sem voru búin að skila ársreikningi en flest þeirra voru búin að skila í september á síðasta ári eða 34.318 félög. Árið áður voru 35.103 fyrirtæki búin að skila fyrir lok árs og hafði sambærilegt hlutfall þeirra lokið skilum í september. Árið 2014 var staðan hins vegar allt önnur. Þá var samtals 29.138 ársreikningum skilað þegar árið var liðið en í september á því ári voru aðeins 16.309 ársreikningar komnir til Ríkisskattstjóra.

Creditinfo býður öllum aðgang að stærsta gagnagrunni fyrirtækjaupplýsinga á Íslandi án áskriftar. Hægt er að sækja nýja og gamla ársreikninga, upplýsingar um lánshæfi fyrirtækja, upplýsingar um endanlegt eignarhald og ýmislegt fleira með því að smella hér.

Deila efni:

Fréttabréf Creditinfo

Fáðu nýjustu fréttir af lausnum og þjónustu Creditinfo í tölvupósti
Frábært! Þú ert núna skráð(ur) í fréttabréfið hjá Creditinfo
Úps, eitthvað fór úrskeiðis. Vinsamlegast reynið aftur með því að endurhlaða síðuna