Framúrskarandi
Framúrskarandi
Framúrskarandi fyritæki

Nýir mælikvarðar Framúrskarandi fyrirtækja

7.6.2023

Í ár kynnir Creditinfo lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki í fjórtánda sinn. Listinn verður gerður opinber við hátíðlega athöfn í haust og með útgáfu veglegs sérblaðs sem fylgir Morgunblaðinu.

Framúrskarandi fyrirtæki eiga það sameiginlegt að vera stöðug fyrirtæki sem byggja rekstur sinn á sterkum stoðum og efla hag allra. Til þess að teljast Framúrskarandi þurfa fyrirtækin að uppfylla ströng skilyrði og byggjast þau í grunninn á eftirfarandi þáttum:

  • Fyrirtækið er í lánshæfisflokki 1-3
  • Ársreikningi skal skilað á réttum tíma lögum samkvæmt
  • Fyrirtækið hefur skilað ársreikningi til RSK síðustu þrjú ár
  • Fyrirtækið er virkt samkvæmt skilgreiningu Creditinfo
  • Rekstrartekjur að lágmarki 55 milljónir króna 2022 og a.m.k. 50 milljónir króna 2021 og 2020.
  • Framkvæmdarstjóri skráður í fyrirtækjaskrá RSK
  • Rekstrarhagnaður (EBIT) jákvæður síðustu þrjú ár
  • Ársniðurstaða jákvæð síðustu þrjú ár
  • Eiginfjárhlutfall a.m.k. 20% síðustu þrjú ár
  • Eignir að minnsta kosti 110 milljónir króna reikningsárið 2022 og a.m.k. 100 milljónir króna 2021 og 2020.

Þótt skilyrðin fyrir að komast á lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki séu ströng þá er það ljóst að það eru ekki einungis fjárhagslegir mælikvarðar sem skera út um það hvort rekstur sé Framúrskarandi.

Mælikvarðar á árangur fyrirtækja eru að taka miklum breytingum en skýrasta birtingarmynd þessara breytinga eru ríkari kröfur sem gerðar eru til fyrirtækja varðandi sjálfbærni. Hingað til hafa upplýsingar um sjálfbærni fyrirtækja verið óstaðlaðar og af skornum skammti. Þróunin í þeim málaflokki er sem betur fer hröð og líklegt að mælikvarðar fyrir sjálfbærni verði komnir inn í rekstrarbókhald flestra fyrirtækja áður en langt um líður.

Creditinfo hefur stigið skref í átt að því að útbúa mælikvarða á sjálfbærni fyrirtækja með því að beina spurningum til Framúrskarandi fyrirtækja um sjálfbærni. Við höfum því hafið þá vegferð að taka sérstakt tillit til sjálfbærniþátta við val á Framúrskarandi fyrirtækjum.

Við teljum að besta leiðin til að innleiða þessi nýju viðmið við val á Framúrskarandi fyrirtækjum sé að byrja á stærri fyrirtækinum sem geta þá orðið minni fyrirtækjum góð fyrirmynd. Þannig er gerð krafa um að fyrirtæki sem velta meira en fimm milljörðum á ári svari sérstökum spurningum um sjálfbærni. Forsvarsmenn fyrirtækja geta svarað spurningunum á mitt.creditinfo.is.

Til að styðja fyrirtækin í þessari upplýsingagjöf hefur Creditinfo byggt gagnagrunn fyrir helstu sjálfbærniupplýsingar fyrirtækja og eru upplýsingarnar miðaðar við nýjustu viðmið í framsetningu þessar upplýsinga. Upplýsingagrunnurinn mun einnig styðja við öll íslensk fyrirtæki varðandi upplýsingar um sjálfbærni en grunnurinn nær í dag til 40.000 innlendra fyrirtækja. Grunnurinn er miðaður við nýjustu viðmið í evrópskri löggjöf og mun taka breytingum miðað við þá þróun sem á sér stað innan Evrópusambandins í kröfum um upplýsingagjöf tengda sjálfbærni.

Þessu til viðbótar áskilur Creditinfo sér rétt til að fjarlægja fyrirtæki tímabundið af lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki ef í ljós kemur að fyrirtækið er undir opinberri rannsókn sem getur haft stórfelld áhrif á fyrirtækið.

Markmið Creditinfo hefur verið frá upphafi að útvega áreiðanleg gögn svo viðskiptavinir okkar geti tekið upplýstar ákvarðanir. Ég vil hvetja forsvarmenn fyrirtækja til að huga tímanalega að skilyrðum fyrir vali á Framúrskarandi fyrirtækjum líkt og að skila ársreikningi tímanlega. Einnig hvet ég forsvarsmenn fyrirtækja að fara inn á vef Creditinfo og kynna sér Veru, sjálfbærniviðmót Creditinfo, sem heldur utan um sjálfbærniupplýsingar um íslensk fyrirtæki.

Vegferðin varðandi upplýsingagjöf um sjálfbærniþætti fyrirtækja er á fleygiferð. Núna í júní tóku í gildi ný lög hér á Íslandi sem munu verða til þess að fjármálafyrirtæki munu í auknum mæli meta fyrirtæki út frá sjálfbærniþáttum. Til að fyrirtæki geti verið í stakk búin að takast á við þessar breytingar reiðir á að þau geti aflað og sýnt fram á áreiðanlegar upplýsingar um sjálfbærniþætti í þeirra rekstri.

Hrefna Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi

Grein Hrefnu birtist í Morgunblaðinu, 7. júní 2023.

Deila efni:

Fréttabréf Creditinfo

Fáðu nýjustu fréttir af lausnum og þjónustu Creditinfo í tölvupósti
Frábært! Þú ert núna skráð(ur) í fréttabréfið hjá Creditinfo
Úps, eitthvað fór úrskeiðis. Vinsamlegast reynið aftur með því að endurhlaða síðuna