No items found.

Nýsköpun í rótgrónum fyrirtækjum

15.10.2020

Ljóst verður í næstu viku hvaða fyrirtæki verða á meðal Framúrskarandi fyrirtækja árið 2020. Líkt og fyrri ár veitir Creditinfo í samstarfi við Icelandic Startups sérstök hvatningarverðlaun um framúrskarandi nýsköpun. Í dómnefnd árið 2020 sitja Ragnheiður H. Magnúsdóttir, ráðgjafi í upplýsingatækni, Ólafur Andri Ragnarsson, aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík og Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups.

Markmið viðurkenningarinnar er að vekja athygli á mikilvægi nýsköpunar hjá rótgrónum fyrirtækjum. Við val á framúrskarandi nýsköpunarfyrirtæki ársins er m.a. horft til skráðra einkaleyfa, samstarfs við háskóla og rannsóknarstofnanir og þess hvort fyrirtækið afli útflutningstekna sem byggja á íslensku hugviti.

Ólafur Andri Ragnarsson, dómnefndarmeðlimur í hvatningarverðlaunum um framúrskarandi nýsköpun, skrifaði grein um nýsköpun í rótgrónum fyrirtækjum sem birtist í Viðskiptamogganum í gær.

Nýsköpun í rótgrónum fyrirtækjum

Árið 2000 var vídeóleigukeðjan Blockbuster fimm milljarða dollara veldi. Með yfir 5200 leigur, vel þekkt viðskiptamódel, öflugan hugbúnað, skýra vinnuferla og sterka og jákvæða ímynd, var fyrirtækið ósigrandi. Aðeins tíu árum síðar, 2010, var það gjaldþrota. Vídeóleigan umbylti leigu á kvikmyndum með nýsköpun á sínum tíma og naut mikillar velgengi en gat ekki aðlagað sig þeim tæknibreytingum sem fylgdu Netinu. Blockbuster tilheyrir hópi fyrirtækja sem eitt sinn voru allsráðandi en skipta nú engu máli. Nýsköpun í rótgrónum fyrirtækjum er mikil áskorun sem þarf sérstaklega að huga að eigi þau að aðlaga sig að tæknibreytinum hvers tíma.

Það er kaldhæðnislegt að Blockbuster bauðst árið 2000 að kaupa lítið nýsköpunarfyrirtæki sem kallað var Netflix. Eins og gengur hjá litlum fyrirtækjum almennt þá var Netflix sífellt í ströggli og því buðu stofnendurnir það til sölu fyrir 50 milljónir dala. Blockbuster afþakkaði. Fyrirtækið var jú með gott módel og yfirburðastöðu. Hvað í ósköpunum gæti lítið nýsköpunarfyrirtæki gert sem það gæti ekki.

Ástæður þess að rótgróin fyrirtæki staðna og stunda ekki nægjanlega nýsköpun eru margar. Oft er fólk einfaldlega upptekið í rekstri og hefur lítinn tíma til að kynna sér nýjungar og af hverju breyta þegar allt gengur vel? Starfsmenn skipta miklu máli, geta þeirra og aðlögunarhæfni. Þegar læra þarf nýja hluti þurfa þeir að vera móttækilegir og jákvæðir fyrir breytingum. En það eru líka fleiri þættir eins og kúltúr, skipurit og verkferlar.

Harvard prófessorinn Clayton Christiansen setti fram líkan sem kallast auðlindir, verkferlar og gildi (e. Resources, Processes and Values, RPV): auðlindir fyrirtækisins (starfsmenn o.fl.), verkferlar (hvernig fólk vinnur) og gildi (hverju það trúir) skilgreina styrk og veikleika fyrirtækja.

Rótgróin fyrirtæki, sem starfa á þekktum og stöðugum mörkuðum, eru ósigrandi þegar nýir aðilar koma inn á markaðinn. Starfsmennirnir vita nákvæmlega allt um reksturinn og markaðinn og hafa tengslanet við alla sem skipta máli. Hins vegar, þegar ný tækni kemur fram, skapast tækifæri til breytinga. Rótgróin fyrirtæki eiga það til að hunsa slík tækifæri. Það eru því oft nýsköpunarfrumkvöðlar sem grípa þau. Fyrir rótgróin fyrirtæki getur slík samkeppni verið erfið. Starfsfólkið þekkir ekki nýju tæknina, lítur niður á hana og gefur sér forsendur til að réttlæta eigin yfirburði. Verkferlum er erfitt að breyta og starfsfólk nær illa að hnika ríkjandi gildum enda eru viðhorf þeirra önnur en hinna sem stýra nýsköpunarfyrirtækjum. „Svona höfum við nú alltaf gert hlutina hérna,“ er viðkvæðið.

Þó svo að stjórnendur rótgróinna fyrirtækja átti sig á nýjum tækifærum og skynji hvert markaðurinn er að fara þá getur verið mikil áskorun að innleiða nýja hugsun og vinnubrögð í fyrirtæki. Ýmsar hindranir geta verið í veginum. Ein er tæknileg en fyrirtæki sem tölvuvæddust í lok síðustu aldar áttu það til að ílengjast í viðskiptakerfum þess tíma. Eftir margra ára sérsmíði í slíkum kerfum er dýrt að greiða þá tækniskuld. Á sama tíma eru nýsköpunarfyrirtæki að nota staðlaðan hugbúnað sem keyrir í skýinu og er aðgengilegur snjalltækjum, hvar sem er og hvenær sem er.

Sé tækniskuld ekki nægjanlegt áhyggjuefni þá eru einnig mannlegar hindranir. Þá er ýmislegt tínt til eins og öryggismál, rekstraráhætta og þörf á frekari úttektum. Jafnvel þótt fólk sé jákvætt getur það samt verið hindrun, sett nýjungar í lægri forgang, tafið mál og borið því við að viðskiptavinurinn gangi fyrir.

Undanfarin ár hafa mörg rótgróin fyrirtæki hafið stafræna umbreytingu. Í því felst að umbreyta allri starfsemi í stafrænar rauntímalausnir þar sem hugbúnaður skiptir öllu máli. Fara frá pappír og símtölum í vefi og öpp. Frá miðlurum í skýið. Frá aðlöguðum viðskiptahugbúnaði í staðlaðan með forritaskilum og nýjum hugbúnaðarlausum fyrirtækisins sem aðgengilegar eru viðskiptavinum með snjallasíma. Í stafrænum heimi er áskorun margra rótgróinna fyrirtækja nýsköpun og að forðast örlög Blockbuster.

Ólafur Andri Ragnarsson er kennari við Háskólann í Reykjavík og höfundur bókar um fjórðu iðnbyltinguna.

Grein Ólafs birtist í Viðskiptamogganum þann 14. október 2020

Deila efni:

Fréttabréf Creditinfo

Fáðu nýjustu fréttir af lausnum og þjónustu Creditinfo í tölvupósti
Frábært! Þú ert núna skráð(ur) í fréttabréfið hjá Creditinfo
Úps, eitthvað fór úrskeiðis. Vinsamlegast reynið aftur með því að endurhlaða síðuna