No items found.

Nýtt líkan fyrir úttektarheimildir viðskiptavina

23.3.2022

Viðskiptavinum Creditinfo býðst nú að fá ráðgjöf við að ákveða úttektarheimildir til viðskiptavina sinna. Hægt er að panta sérsniðnar skýrslur sem ákvarða úttektarheimildir auk þess sem hægt er að nýta líkan frá sérfræðingum Creditinfo til að framkvæma sjálfvirkar ákvarðanir um úttektarheimildir viðskiptavina með Snjallákvörðun Creditinfo. Hér verður farið nánar yfir ákvörðun úttektarheimilda, líkan Creditinfo og hvernig hægt er að nýta þjónustu sérfræðinga Creditinfo við ákvörðun úttektarheimilda.  

Hvað eru úttektarheimildir? 

Margir einstaklingsnotendur kreditkorta kannast eflaust við tilfinninguna að vera á kassanum í matvörubúðinni að greiða fyrir fulla körfu af nauðsynjavörum fyrir heimilið en fá neitun í posanum. Yfirleitt er ástæðan sú að farið var yfir úttektarheimild (e. credit limit) kreditkortsins. Útgefendur kreditkorta veita notendum kreditkorta úttektarheimild sem á að endurspegla þá fjárhæð sem útgefendurnir eru tilbúnir að lána notendunum. Fjárhæðin er m.a. háð greiðslusögu og lánshæfiseinkunn notandans (lánshæfiseinkunnin endurspeglar hversu líklegt er að hann lendi í alvarlegum vanskilum á næstu 12 mánuðum). Notandinn greiðir svo fyrir notkun á heimildinni í lok hvers úttektartímabils (sem er langoftast mánuður í senn).  

Á sama hátt byggjast viðskipti milli tveggja fyrirtækja einnig oft á úttektarheimildum á þann hátt að annað fyrirtækið (venjulega söluaðili þjónustu eða vöru) er reiðubúið að veita hinu fyrirtækinu (venjulega kaupanda þjónustu eða vöru) vissa úttektarheimild til að greiða fyrir þjónustuna/vöruna. Fjárhæð úttektarheimildar fyrir fyrirtæki er oft metin af þriðja aðila og er mismunandi hvaða upplýsingar eru lagðar til grundvallar henni. Í sumum tilfellum er heimildin tengd lánshæfiseinkunn þess fyrirtækis sem kaupir vöruna eða þjónustuna en í öðrum tilfellum er heimildin visst hlutfall af stærðum sem lesa má úr ársreikningi þess, s.s. eigin fé eða tekjum. 

Líkan Creditinfo

Þar sem fyrirtæki þurfa að skila ársreikningum er fjárhagur þeirra og tekju- og útgjaldamyndun yfirleitt gagnsærri en hjá einstaklingum. Það er því oftast auðsóttara að áætla raunverulega greiðslugetu fyrirtækja en einstaklinga. Með þetta að leiðarljósi hefur Creditinfo þróað eigin aðferð við að meta úttektarheimildir fyrir fyrirtæki í viðskiptum sín á milli.  

Úttektarheimild fyrir fyrirtæki má túlka sem hámarksfjárhæð skammtímabirgðalána sem fyrirtækið getur haft útistandandi án þess að skerða getu sína til að greiða aðrar skuldir. Úttektarheimildin er byggð á lánshæfismati og mismun rekstrartekna og grunnrekstrarkostnaðar (hér er grunnrekstrarkostnaður = rekstrargjöld alls – kostnaðarverð seldra vara) en að teknu tilliti til þess hversu líklegt er að fyrirtækið lendi ekki í greiðsluvandræðum á næstu 12 mánuðum.  

Á myndinni hér fyrir ofan er hægt að sjá hvernig ákvörðun um úttektarheimild gæti litið út fyrir fyrirtæki. Auk grunnupplýsinga um fyrirtækið er í skýrslunni hægt að finna lykiltölur úr rekstri fyrirtækisins þrjú ár aftur í tímann. Lánshæfismat fyrirtækisins er listað efst á skalanum 1-10 þar sem 1 er besta mögulega einkunnin og 10 sú versta. Úttektarheimildin er svo skilgreind í samstarfi við hvern og einn viðskiptavin en þá er hægt að ákveða mörk úttektar fyrir hvern og einn lánshæfisflokk.

Sjálfvirkar ákvarðanir um úttektarheimildir

Snjallákvörðun Creditinfo er ný þjónusta sem stendur áskrifendum Creditinfo til boða. Með Snjallákvörðun er hægt að taka sjálfvirkar ákvarðanir um viðskiptasambönd út frá gögnum Creditinfo. Fyrirtæki velja þau gögn og viðmið sem þau vilja nota við sína ákvarðanatöku og sérfræðingar Creditinfo sjá um uppsetningu og ráðgjöf eftir þörfum. Snjallákvarðanir eru að lokum aðgengilegar á þjónustuvef Creditinfo og í vefþjónustu, þar sem starfsmenn geta framkvæmt mat á viðskiptavinum á augabragði. 

Hægt er að nýta ofangreint líkan Creditinfo til að taka ákvarðanir um úttektarheimildir viðskiptavina með sjálfvirkum hætti. Til að lágmarka áhættu í rekstri er ekki nóg að kanna stöðu viðskiptavina í upphafi viðskiptasambands heldur er nauðsynlegt að hafa vökul augu yfir þróun á lánshæfi viðskiptavina yfir allt viðskiptasambandið. Með því að taka ákvörðun um breytingar á úttektarheimild með skýrum sjálfvirkum ferlum er á sama tíma hægt að draga úr áhættu og auka skilvirkni í rekstri.  

Hafðu samband ef þú vilt fá kynningu á Snjallákvörðun Creditinfo fyrir þitt fyrirtæki. 

Deila efni:

Fréttabréf Creditinfo

Fáðu nýjustu fréttir af lausnum og þjónustu Creditinfo í tölvupósti
Frábært! Þú ert núna skráð(ur) í fréttabréfið hjá Creditinfo
Úps, eitthvað fór úrskeiðis. Vinsamlegast reynið aftur með því að endurhlaða síðuna