No items found.

Origo hf. hlaut verðlaun Creditinfo fyrir framúrskarandi nýsköpun

20.10.2022

Tæknifyrirtækið Origo hf. hlaut hvatningarverðlaun Creditinfo fyrir nýsköpun meðal Framúrskarandi fyrirtækja 2022. Verðlaunin fyrir nýsköpun eru veitt í samstarfi við Icelandic Startups. Markmið viðurkenningarinnar er að vekja athygli á mikilvægi nýsköpunar hjá rótgrónum fyrirtækjum. Við valið er m.a. horft til skráðra einkaleyfa, samstarfs við háskóla og rannsóknarstofnanir og þess hvort fyrirtækið afli útflutningstekna sem byggja á íslensku hugviti.

Í umsögn dómnefndar kemur fram að Origo sé einstakt dæmi um fyrirtæki sem á langa sögu í upplýsingatækni og nær að byggja nýsköpun inn í alla vinnu fyrirtækisins, gefur starfsfólki ábyrgð til að skapa og þannig leggja sitt af mörkum til að stuðla að hugvitsdrifnum hagvexti og skapa verðmæt störf.

Origo er íslenskt upplýsingatæknifyrirtæki sem á rætur sínar að rekja til árdaga tölvuvæðingar landsins. Það er samofið upplýsingatækni í gegnum IBM á Íslandi á síðustu öld, svo Nýherja og loks Origo með sameiningu leiðandi aðila í upplýsingatækni. Í umsögn dómnefndar segir einnig að fyrirtækið hafi haft nýsköpun að leiðarljósi og þurft stöðugt að endurnýjast í gegnum tíðina og aðlagast sífelldum tæknibreytingum. 

Dómnefndin segir jafnframt að það megi segja að nýsköpun sé innbyggð í starfsemi fyrirtækisins, með slagorðinu „Betri tækni bætir lífið“. Mannauðsstefna félagsins, menning og gildi eru öll tengd nýsköpun og stöðugum úrbótum. Árlega eru haldnir „ofurhetjudagar“ þar sem starfsfólk helgar sig nýsköpun í 24 tíma.

Nýsköpun getur skilað miklum arði

Dómnefnd bendir á að nýsköpun getur verið arðbær eins og saga Tempo sýnir. Tempo er fyrirtæki sem aðskilið var frá starfsemi móðurfélagsins árið 2014. Það sérhæfir sig í tímaskráningum í þróunartólinu JIRA. Origo seldi 40% hlut sinn í félaginu nýverið á 29 milljarða króna. Það er álíka virði og markaðsvirði móðurfélagsins. Þannig geta nýsköpunarverkefni vaxið og skilað miklum arði.

Um hvatningarverðlaunin

Hvatningarverðlaunin eru veitt samhliða birtingu lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki 2022. Dómnefnd vann úr lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki og sýndu fram á skýra stefnu í nýsköpun í sinni starfsemi. Verðlaunin eru unnin í samstarfi við Icelandic Startups. Í dómnefnd sátu Ólafur Andri Ragnarsson formaður dómnefndar, aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík, Helga Valfells, framkvæmdastjóri Crowberry Capital, Kristín Soffía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups og Þorsteinn G. Gunnarsson, ráðgjafi.

Deila efni:

Fréttabréf Creditinfo

Fáðu nýjustu fréttir af lausnum og þjónustu Creditinfo í tölvupósti
Frábært! Þú ert núna skráð(ur) í fréttabréfið hjá Creditinfo
Úps, eitthvað fór úrskeiðis. Vinsamlegast reynið aftur með því að endurhlaða síðuna