Framúrskarandi fyritæki

Össur hf. hlaut verðlaun fyrir Framúrskarandi sjálfbærni 2023

26.10.2023

Össur hf. hlaut hvatningarverðlaun fyrir Framúrskarandi sjálfbærni árið 2023. Markmið viðurkenningarinnar er að vekja athygli á því að framúrskarandi rekstur felur í sér að fyrirtæki hafi jákvæð áhrif á umhverfið og samfélagið sem þau starfa í og hámarki þannig fjárhagslegan árangur sinn.

https://vimeo.com/878219702?share=copy

Í umsögn dómnefndar kemur fram að Össur hafi um árabil látið sig sjálbærni varða og er í fararbroddi, hvort sem litið er til umhverfismála, samfélagsmála eða stjórnarhátta.

Sjálfbærni á efsta stigi

Þá er einnig nefnt að fyrirtækið hafi stigið eftirtektarvert skref árið 2022 þegar það gaf sjálfbærni aukið vægi við framkvæmdastjórnarborðið. „Með þessari ákvörðun undirstrikaði fyrirtækið áherslu þess á málaflokkinn,“ segir í umsögninni. „Utanumhald og skipulag sjálfbærnivinnu fyrirtækisins er í föstum skorðum. Innan fyrirtækisins starfar sérstakur stýrihópur um sjálfbærni sem leiddur er af framkvæmdastjóra mannauðs, stefnu og sjálfbærni. Stýrihópurinn heyrir beint undir framkvæmdastjórn fyrirtækisins. Einingin hefur með höndum að móta og fylgja eftir sjálfbærniáherslum fyrirtækisins og ber ábyrgð á því að viðhalda og sækja aukna þekkingu á alþjóðlegum stefnum og straumum er varða þennan málaflokk sem er í sífelldri þróun. Nálgun fyrirtækisins á sjálfbærni hefur breiða skírskotun og fyrirtækið hefur fundið gott jafnvægi þegar kemur að áherslum og aðgerðum innan ólíkra vídda sjálfbærninnar.“

Dómnefndin minnist einnig á að fyrirtækið leggi áherslu á jafnrétti, jöfn kjör og fjölbreytileika. „Fyrirtækið hefur náð árangri á þessu sviði og vinnur skipulega að því að gera sífellt betur. Hjá fyrirtækinu starfa því sem næst jafnmargar konur og karlar, 38% stjórnenda eru konur, 43% framkvæmdastjóra og hlutföll kvenna í framkvæmdastjórn er 38%.“

Ríkar kröfur til starfsfólks

Í umsögninni segir að Össur geri einnig ríkar siðferðislegar kröfur til eigin starfsfólks „Árið 2022 hafði 73% starfsfólks sótt námskeið sem hverfist um þær siðareglur sem fyrirtækið hefur sett sér. Fyrirtækið gerir svo ekki minni siðferðiskröfur til birgja sinna. Fyrirtækið gerir þannig kröfu um að birgjar fylgi viðurkenndum siðferðisviðmiðum sem skilgreind eru í alþjóðalögum og alþjóðasáttmálum. Á liðnu ári hefur fyrirtækið verið að þróa nálgun sína við að meta hvort birgjar uppfylli kröfur fyrirtækisins. Ef svo ber undir hefur fyrirtækið boðið birgjum aðstoð við úrbætur en ef vöntun er á samstarfsvilja áskilur fyrirtækið sér rétt til að segja upp viðkomandi viðskiptum. Þess utan gerir fyrirtækið einnig kröfur til birgja er varða umhverfis- og samfélagsmál.

Í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu í upphafi árs 2022 bauð fyrirtækið fram gjafaaðstoð til úkraínskra stjórnvalda í formi stoðtækja og klínískrar þjálfunar. Frá upphafi innrásarinnar hefur fyrirtækið komið að þjálfun úkraínskra stoðtækjafræðinga og gefið töluvert magn stoðtækja sem nýtast úkraínskum fórnarlömbum stríðsins.

Stuðningur við samfélagið

Össur er einn af stofnmeðlimum verkefnisins Römpum upp Ísland. Tilgangur verkefnisins er að auka aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, verslunum og veitingahúsum á Íslandi. Verkefnið hófst árið 2021 og er markmið þess að reisa 1.500 rampa á fjórum árum. Þegar þetta er skrifað hafa hátt í þúsund rampar litið dagsins ljós.

Af öðrum leiðum Össurar til að auðga þau samfélög sem fyrirtækið er hluti af má nefna að fyrirtækið býður á hverju ári eigin starfsfólki að sinna sjálfboðavinnu að eigin vali í einn dag á fullum launum.

Össur hefur náð góðum árangri í bættri orkunýtingu og 99% af þeirri raforku sem fyrirtækið nýtir er vottuð sem endurnýjanleg. Fyrirtækið kaupir kolefniseiningar til að jafna losun og er kolefnishlutlaust ef horft er til beinnar losunar, óbeinnar losunar vegna orkunotkunar og valinnar losunar í virðiskeðju þess. Fyrirtækið ætlar að ganga lengra og staðfesti á árinu 2022 þátttöku í alþjóðlega verkefninu Science-Based Targets initiative. Verkefnið felur í sér að fyrirtæki setji sér losunarmarkmið í takt við alþjóðlegt markmið um að hlýnun jarðar frá iðnbyltingu verði ekki  meiri en 1,5°C. Nýtt markmið Össurar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda mun innihalda frekari losun í virðiskeðju fyrirtækisins.“

Um hvatningarverðlaunin

Hvatningarverðlaunin eru veitt samhliða birtingu lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki 2023. Dómnefnd vann úr lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki sem sýndu fram á skýra stefnu um samfélagsábyrgð, sjálfbærni, kynjajafnrétti og réttindi starfsfólks. Verðlaunin eru unnin í samstarfi við Festu – miðstöð um sjálfbærni. Í dómefnd sátu Þórólfur Nielsen, forstöðumaður stefnumótunar og sjálfbærni hjá Landsvirkjun, Bryndís Björk Ásgeirsdóttir forseti samfélagssviðs hjá Háskólanum í Reykjavík, Erla Tryggvadóttir, samskiptastjóri VÍS og Finnur Ricart Andrason, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun og forseti UU.

Deila efni:

Fréttabréf Creditinfo

Fáðu nýjustu fréttir af lausnum og þjónustu Creditinfo í tölvupósti
Þú hefur verið skráður í fréttabréf hjá Creditinfo
Oops! Something went wrong while submitting the form.