Lánshæfismat Creditinfo var nýlega uppfært í samræmi við nýja reglugerð um vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust og er uppfært lánshæfismat aðgengilegt á Mitt Creditinfo.
Hér er hægt að finna almennar upplýsingar um uppfærsluna.
Við uppfærslu á lánshæfismatinu getur vægi einstakra þátta sem liggja til grundvallar matinu eftir atvikum minnkað eða aukist, nýir þættir teknir til skoðunar eða gamlir felldir út, og lánshæfiseinkunn einstaklinga því breyst.
Hér fyrir neðan er að finna svör við algengum spurningum varðandi uppært lánshæfismat. Til að tryggja örugg samskipti viljum við beina öllum fyrirspurnum um uppfært lánshæfismat í gegnum Mitt Creditinfo.
Lánshæfismat Creditinfo er mat á líkum þess að þú munir standa við skuldbindingar þínar og er notað af bönkum og ýmsum aðilum sem veita fjárhagslega fyrirgreiðslu. Allir einstaklingar, 18 ára og eldri með íslenska kennitölu, skráð lögheimili á Íslandi og enga virka skráningu á vanskilaskrá Creditinfo fá reiknað og birt lánshæfismat.
Lánshæfismat Creditinfo flokkar einstaklinga í 15 mismunandi flokka, merktir A1-E3, eftir því hverjar líkurnar eru á að þeir verði skráðir á vanskilaskrá á næstu 12 mánuðum.
A1 er besti flokkurinn en úr honum fara 1-2 af hverjum 1.000 einstaklingum inn á vanskilaskrá á næstu 12 mánuðum (0.1-0.2% vanskilatíðni) á meðan í þeim versta, E3 er líklegt að meirihluti allra fari í vanskil á næstu 12 mánuðum (>50% vanskilatíðni).
Munurinn milli flokka er sá að vanskilatíðni ca. tvöfaldast, t.d. á milli B3 og C1. Þannig má t.d. búast við því að 2-4 af hverjum 100 fari í vanskil á næstu 12 mánuðum af þeim sem eru í B3 (2%-4% vanskilatíðni) á meðan 4-8 af hverjum 100 fari í vanskil af þeim sem eru í C1 (4%-8% vanskilatíðni). Þó skal hafa í huga að hver vanskilin verða fer eftir efnahagsástandi og þeim úrræðum sem eru í boði hverju sinni, t.d. voru vanskil lægri en sögulegt meðaltal í COVID en eru nú að nálgast sögulegt meðaltal aftur.
Í nýrri uppfærslu á lánshæfismati Creditinfo hafa verið gerðar breytingar á áhrifaþáttum lánshæfismatsins í samræmi við nýja reglugerð um vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust nr. 606/2023 sem tók gildi 1. september síðastliðinn.
Lánshæfismat Creditinfo er uppfært reglulega til að tryggja að matið sé eins nákvæmt og áreiðanlegt og mögulegt er hverju sinni. Við uppfærslu á lánshæfismatinu getur vægi einstakra þátta sem liggja til grundvallar matinu eftir atvikum minnkað eða aukist, nýir þættir teknir til skoðunar eða gamlir felldir út, og lánshæfiseinkunn einstaklinga því breyst.
Í nýrri uppfærslu á lánshæfismati Creditinfo hafa verið gerðar breytingar á áhrifaþáttum lánshæfismatsins í samræmi við nýja reglugerð um vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust.
Helsta breytingin sem átti sér stað með þessari nýju reglugerð er að nú er það lagt í hendur fjárhagsupplýsingastofu að meta það hvaða upplýsingar, og þá sérstaklega upplýsingar um fyrri vanskil, hafa afgerandi þýðingu við mat á líkum þess að einstaklingar standi við skuldbindingar sínar.
Einn af áhrifaþáttum í lánshæfismati einstaklinga eru upplýsingar um fyrri vanskil, en í þessari nýju uppfærslu lánshæfismatsins er nú er litið til eldri upplýsinga um vanskil einstaklinga en áður, en besti sögulegi mælikvarði á það hvort einstaklingar standi við skuldbindingar sínar í framtíð er hvort þeir hafi alltaf gert það áður. Áhrif fyrri vanskila á lánshæfismat eru þó þannig að þau eru mest þegar þau eru nýleg en dvína svo með tímanum.
Creditinfo leggur þó mikla áherslu á að nota eingöngu sögulegar upplýsingar sem hafa afgerandi áhrif á mat á því hvort staðið verði við skuldbindingar í framtíð. Þessi breyting hefur því áhrif til hækkunar eða lækkunar á lánshæfismati eftir því hver vanskilasaga viðkomandi er. Það þýðir að lánshæfismat þeirra sem hafa alltaf staðið í skilum, yfir 80% þjóðarinnar, er líklegt til að batna á meðan lánshæfismat sumra þeirra sem hafa ekki alltaf staðið í skilum versnar.
Við uppfærsluna batnaði lánshæfismat hjá um 25% þjóðarinnar á meðan það versnaði hjá um 15% og stóð í stað hjá 60%. Flestar breytingar voru þó litlar, hnikun um einn til tvo flokka (t.d. frá A3 upp í A1). Hin aukna notkun á vanskilasögu varð til þess að innan við 1% þjóðarinnar fór úr flokkum A eða B, niður í C1 eða neðar. Áhrifin á þann hóp sem á söguleg vanskil, þ.e. hefur verið inni á vanskilaskrá á síðustu þremur árum, voru mest en eins og áður sagði þá þýða upplýsingar um að einstaklingur hafi ekki staðið í skilum í fortíð að sá hinn sami er ólíklegri en aðrir til að standa í skilum í framtíð. Hafa skal samt í huga að það þýðir ekki endilega að það sé ólíklegt að þeir standi í skilum því vanskilatíðni í C2 er t.d. um 10% sem þýðir að um 90% einstaklinga þar mun ekki fara inn á vanskilaskrá á næstu 12 mánuðum.
Einnig má benda á að einstaklingum er boðið upp á það að heimila notkun aukaupplýsinga við gerð lánshæfismats í gegnum Mitt Creditinfo og ef þær upplýsingar sýna að engin fjárhagsleg vandræði hafi komið upp nýlega þá minnka áhrif fyrri vanskila verulega.
Myndin hér að neðan sýnir dreifingu þjóðarinnar í lánshæfisflokka en þar sést að langstærstur hluti er með gott lánshæfi, t.d. er um 80% einstaklinga með lánshæfi B3 eða betra.
Besta leiðin til að tryggja gott lánshæfismat er að greiða reikninga fyrir eða á eindaga til að forðast vanskil. Samþykki um notkun viðbótarupplýsinga við gerð lánshæfismats er einnig tækifæri til að hafa áhrif á lánshæfismatið til góðs. Creditinfo hvetur einstaklinga til að fara vel yfir alla áhrifaþætti í lánshæfismati sínu. Mikilvægt er að skoða hvort t.d. tengsl við fyrirtæki séu rétt skráð hjá fyrirtækjaskrá þar sem staða fyrirtækja sem þú tengist getur haft áhrif á lánshæfismatið þitt, allt eftir því hvernig þeim tengslum er háttað.