No items found.

<strong>Bætt afkoma fyrirtækja eftir COVID-19 faraldurinn</strong>

9.8.2022

Hlutfallslega fleiri fyrirtæki hafa skilað hagnaði fyrir rekstrarárið 2021 heldur en árin á undan. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Creditinfo á þeim ársreikningum sem skilað hefur verið fyrir reikningsárið 2021. Almennur skilafrestur ársreikninga er út ágúst en nú þegar hefur tæpur helmingur virkra fyrirtækja skilað ársreikningi. Í greiningu Creditinfo var litið sérstaklega til fyrirtækja með rekstrartekjur yfir 10 milljónum króna og voru eignarhaldsfélög tekin út fyrir sviga.

Séu niðurstöður ársreikninga fyrir árið 2021 bornar saman við árin tvö á undan kemur skýrt fram að hagur fyrirtækja hafi vænkast. Um 73% virkra fyrirtækja skiluðu hagnaði árið 2021 í samanburði við 62% árið 2020 og 63% árið 2019. Þá batnaði afkoma milli ára hjá 62% fyrirtækja frá árinu 2020 til 2021 en aðeins um 50% fyrirtækja bættu afkomu sína frá árinu 2019 til 2020. Þegar litið er til afkomu eftir atvinnugreinum kemur skýrt fram að í öllum helstu atvinnugreinum megi sjá bætta afkomu frá árinu 2020 til ársins 2021.

Í samtali við Rás 2 um greininguna segir Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi, að niðurstöðurnar gefi til kynna að stuðningsaðgerðir íslenskra stjórnvalda í kjölfar COVID-19 faraldursins hafi skilað árangri. „Við sjáum það í þessum tölum að fyrirtækin voru gripin,“ segir Hrefna. Hún bætir því við að fram undan eru þó blikur á lofti í íslensku efnahagslífi. „Stríðið í Úkraínu er að hafa áhrif á allan heiminn, líka á okkur. Vextir fara hækkandi og verðbólga einnig [...] það er því mikilvægt að allir haldi vel á spöðunum, hvort sem verið er að stýra ríkisfjármálunum eða fyrirtækjunum“ segir Hrefna.

Mun fleiri ferðaþjónustufyrirtæki skila hagnaði

COVID-19 faraldurinn hafði mjög neikvæð áhrif á afkomu ferðaþjónustufyrirtækja en þau hafa tekið hratt við sér miðað við greiningu Creditinfo. Í greiningunni eru um 500 ferðaþjónustufyrirtæki sem er um þriðjungur þeirra félaga sem eru í virkri starfsemi sem ferðaþjónustufyrirtæki. Um 70% þessara 500 fyrirtækja skiluðu hagnaði árið 2021 í samanburði við 30% árið 2020 og 52% árið 2019. Afkoma batnaði milli ára hjá 78% fyrirtækja (milli 2020 og 2021) í samanburði við 30% fyrirtækja árið áður (milli 2019 og 2020) 

Hafa verður í huga að líklega eru það stærstu fyrirtækin sem eru búin að skila ársreikningi nú þegar og að þau ferðaþjónustufyrirtæki sem standa illa skili ársreikningi annað hvort seint eða ekki. Tölurnar gefa því ekki heildarmynd af stöðu mála en árið 2021 virðist hafa komið nokkuð vel út miðað við þetta úrtak.

Vanskil í sögulegu lágmarki

Stuttu eftir að COVID-19 faraldurinn hófst gripu stjórnvöld og lánastofnanir til aðgerða til að milda áhrifin á íslenskt efnahagslíf. Stjórnvöld hófu ýmsar aðgerðir eins og hlutabótaleiðina, Seðlabankinn lækkaði vexti og lánastofnanir veittu greiðslufresti svo dæmi séu tekin. Allar þessar aðgerðir höfðu það í för með sér að vanskilum fyrirtækja og einstaklinga fækkaði umtalsvert. Samkvæmt greiningu Creditinfo eru vanskil almennt séð enn í lágmarki og hafa sjaldan eða aldrei verið minni. Vanskil á meðal ferðaþjónustufyrirtækja hafa verið meiri en í öðrum geirum í kjölfar COVID-19 faraldursins en eru nú hlutfallslega lág eða um 3,7%. Langtímameðaltal er að um 5% fyrirtækja lenda í vanskilum á ári hverju.

Deila efni:

Fréttabréf Creditinfo

Fáðu nýjustu fréttir af lausnum og þjónustu Creditinfo í tölvupósti
Frábært! Þú ert núna skráð(ur) í fréttabréfið hjá Creditinfo
Úps, eitthvað fór úrskeiðis. Vinsamlegast reynið aftur með því að endurhlaða síðuna