Í nýlegri úttekt Viðskiptablaðsins kemur fram að á árinu 2022 sektuðu eftirlitsaðilar tilkynningarskylda aðila um samtals 61 milljón króna fyrir að hafa ekki fylgt lögum um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka með fullnægjandi hætti. Eftirlit með framkvæmd laganna hefur verið eflt til muna og sú skýlausa krafa gerð að tilkynningarskyldir aðilar sinni þeim skyldum sem á þeim hvíla skv. lögunum.
Skylda tilkynningarskyldra aðila snýst aðallega um að þekkja deili á viðskiptamönnum sínum, en það gera þeir aðallega með því að framkvæma á þeim áreiðanleikakönnun og kanna hvort þeir eða raunverulegir eigendur séu í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla eða séu á alþjóðlegum þvingunarlistum. Framkvæma þarf áreiðanleikakönnun áður en stofnað er til viðskiptanna og tilkynningarskyldum aðilum er óheimilt, að teknu tilliti til áhættumats, að stunda viðskipti við aðila sem ekki hefur verið framkvæmd áreiðanleikakönnun á. Þá ber þeim einnig að viðhafa virkt eftirlit með viðskiptasambandinu og framkvæma aukna áreiðanleikakönnun í ákveðnum tilfellum, t.d. ef í ljós kemur að viðskiptamaður eða raunverulegur eigandi reynist vera í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla.
Þeir einstaklingar sem eru, eða hafa verið, háttsettir í opinberri þjónustu, ásamt nánustu fjölskyldu þeirra og nánum samstarfsmönnum, eru taldir vera í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Fjármálaeftirlitið heldur úti lista yfir þau starfsheiti sem teljast til háttsettra opinberra starfa, en á þeim lista eru t.d. æðstu ráðamenn þjóðarinnar, einstaklingar í stjórnum stjórnmálaflokka, hæstaréttardómarar, landsréttardómarar, hæstráðendur seðlabanka íslands, sendirherrar og staðgenglar þeirra og fulltrúar í stjórnum og framkvæmdastjórar fyrirtækja í meirihlutaeigu íslenska ríkisins. Allir þeir aðilar sem gegna þessum störfum teljast því vera í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla og einnig makar þeirra, börn, stjúpbörn, tengdabörn og foreldrar.
Eftirlitsaðilar hafa á undanförnu sektað tilkynningarskylda aðila fyrir að kanna þessar upplýsingar ekki með fullnægjandi hætti og einnig fyrir að vanrækja þá lagaskyldu sem hvílir á þeim varðandi það að kanna hvort viðskiptamenn þeirra sæti alþjóðlegum þvingunaraðgerðum.
Creditinfo hefur nú í nokkurn tíma boðið tilkynningarskyldum aðilum að fletta upp í sér-íslenskum gagnagrunni sem inniheldur þá aðila sem teljast vera í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Gagnagrunnurinn er töluvert ítarlegri en aðrir sambærilegir grunnar, unninn í samstarfi við Persónuvernd og kennitölutengdur, en með því móti geta tilkynningarskyldir aðilar sjálfvirknivætt þessa athugun sína.
Nýjasta viðbót í vöruframboð Creditinfo er svo tenging við alþjóðlega gagnagrunna svo að tilkynningarskyldir aðilar geti kannað hvort viðskiptamenn þeirra séu á alþjóðlegum þvingunarlistum eða hvort erlendir viðskiptamenn séu í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Gögn um erlenda aðila og alþjóðlega Sanctions og Watchlist eru sótt frá alþjóðlega fyrirtækinu LexisNexis sem hefur að geyma einn stærsta og áreiðanlegasta gagnagrunn sinnar tegundar á heimsvísu yfir slíkar upplýsingar.
Með aðgang að KYC vöruframboði Creditinfo geta tilkynningarskyldir aðilar aflað áreiðanlegra upplýsinga um viðskiptamenn sína á einum stað til að tryggja að varnir þeirra gegn peningaþvætti séu eins góðar og kostur er á.
Endilega hafið samband ef þið vijlið fá nánari kynningu á KYC vöruframboði Creditinfo.