Í nýlegu viðtali við MBL lýsti framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT) þungum áhyggjum af fjölgun gjaldþrota í greininni. Í ljósi þessarar fréttar skoðaði greiningardeild Creditinfo þróun fjölda gjaldþrota í veitingageiranum og samanburð við nokkrar aðrar greinar.
Í greiningunni skoðuðum við fyrirtæki í virkri starfsemi samkvæmt skilgreiningu Creditinfo í atvinnugreinaflokkum 55.10.1 (Hótel og gistiheimili með veitingaþjónustu), 56.10.0 (Veitingastaðir) og 56.29.0 (Önnur ótalin veitingaþjónusta).
Fjöldi fyrirtækja í þessum þremur greinum (veitingageiranum) jókst um 60% frá ársbyrjun 2018 til ársbyrjunar 2024 (úr 600 í 960). Fjölgunin varð talsvert meiri en í flestum öðrum atvinnugreinum á þessu tímabili enda er veitingarekstur samofinn ferðaþjónustunni sem var á mikilli uppleið um og eftir 2016. Fjölgunin varð þó einnig mikil í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, úr 2500 í 3760 (50%).
Tæplega 70 fyrirtæki í veitingageiranum urðu gjaldþrota árið 2023 en það er nánast sami fjöldi og árið 2020. Á sama tíma urðu 135 ferðaþjónustufyrirtæki gjaldþrota – einnig svipaður fjöldi og 2020. Sjá mynd hér að neðan. Fjöldinn fyrir 2024 í heild er metinn út frá fyrstu 5 mánuðum ársins 2024. Hafa ber í huga að frá 2020 hefur fyrirtækjum í veitingageiranum fjölgað um þriðjung og fyrirtækjum í ferðaþjónustu hefur fjölgað um 23% þ.a. hlutfallslega færri fyrirtæki urðu gjaldþrota í fyrra en 2020. Til samanburðar fjölgaði gjaldþrotum mikið í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð en þau voru um 300 árið 2023 sem er u.þ.b. tvöfaldur meðalfjöldi gjaldþrota árin 2018 til 2021.
Þróun hlutfallslegs fjölda gjaldþrota fyrirtækja af öllum fyrirtækjum í virkri starfsemi í atvinnugreinunum má sjá á myndinni hér að neðan. Hlutfallið fyrir 2024 í heild er sem fyrr metið út frá fyrstu 5 mánuðum ársins 2024. Árið 2022 sker sig úr með óvenjufá gjaldþrot í samanburði við árin í kring. Líklegt er að sértækar aðgerðir ríkisstjórnarinnar og lánafyrirtækjanna vegna COVID-faraldursins hafi spilað aðalhlutverk í fækkun gjaldþrota það árið. Fjölgun gjaldþrota eftir 2022 má eflaust að einhverju leyti rekja til afleiðinga aðgerðanna, þ.e. að fyrirtæki hafi í raun fengið gálgafrest.
Í veitingageiranum var hlutfall gjaldþrota fyrirtækja 7,2% árið 2023 en 5,9% í ferðaþjónustu. Miðað við fjölda gjaldþrota það sem af er ári má áætla að hlutfall gjaldþrota fyrirtækja í árslok verði um 8% í veitingageiranum en 6,3% í ferðaþjónustunni. Þessar tölur eru aðeins lægri en á árunum fyrir Covid og nokkuð lægri en árið 2020 þegar Covid skall á. Í veitingageiranum fór hlutfallið hæst í 10,8% árið 2020 og í 6,7% í ferðaþjónustu sama ár.
Til samanburðar var sama hlutfall 6,4% í smásölu á síðasta ári og gæti það endað í um 8% fyrir árið í ár miðað við forsendur um áframhaldandi þróun. Í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð var hlutfallið 8,1% í fyrra en gæti farið í 8,8% í lok árs.
Þróun fjölda fyrirtækja og gjaldþrota í öðrum helstu atvinnugreinum en sýndar eru í greiningunni hefur verið með sambærilegum hætti.
Það er hægt að taka undir áhyggjur framkvæmdastjóra SVEIT af fjölgun gjaldþrota frá lágpunktinum 2022 en í sögulegu samhengi er hlutfallslegur fjöldi gjaldþrota þó enn lægri en 2018 til 2020, einkum vegna mikillar fjölgunar veitingastaða undanfarin ár.
Fjallað var um greiningu Creditinfo í ViðskiptaMogganum 26. júní 2024.