No items found.

Tryggingafélagið Vörður hlaut verðlaun fyrir Framúrskarandi samfélagsábyrgð 2020

21.10.2020

Tryggingafélagið Vörður fékk verðlaun fyrir árangur á sviði samfélagsábyrgðar meðal Framúrskarandi fyrirtækja 2020. Markmið viðurkenningarinnar er að vekja athygli á því að framúrskarandi rekstur felur í sér að fyrirtæki hafi jákvæð áhrif á umhverfið og samfélagið sem þau starfa í og hámarki þannig fjárhagslegan árangur sinn.

Markviss innleiðing samfélagsábyrgðar síðan 2012

Í úrskurði dómnefndar kemur fram að Vörður hafi unnið markvisst að því að innleiða samfélagsábyrgð í starfsemina frá árinu 2012 og hafi sett sér mælanleg og skýr markmið þar sem horft er til allra þátta. Fyrirtækið fylgir eftir Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og horfir til sjálfbærnisjónarmiða við fjárfestingar og í samstarfi við birgja. Markmið félagsins varða ekki eingöngu fjárhaginn heldur ná þau einnig til umhverfismála, félagslegra þátta og stjórnarhátta. Árlega gefur Vörður út sjálfbærniskýrslu sem unnin er samkvæmt UFS viðmiðum Nasdaq (umhverfisþáttum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum). Vörður leggur áherslu á þá málaflokka innan UFS sem félagið getur haft mest áhrif á og eru viðeigandi og mikilvægir fyrir kjarnastarfsemina.

Vörður er alhliða vátryggingafélag sem hefur það að markmiði að bjóða viðskiptavinum viðeigandi vátryggingavernd. Vöxtur og viðgangur Varðar hefur verið góður undanfarin ár. Grunnurinn er traustur og félagið býr yfir ákaflega góðum og metnaðarfullum hópi starfsfólks sem telur 108 manns. Vörður var fyrst fjármálafyrirtækja til að hljóta jafnlaunavottun og hefur starfsemin verið kolefnisjöfnuð frá árinu 2013.

„Verðlaunin eru mikil viðurkenning fyrir okkar starf og góð hvatning fyrir starfsfólk Varðar. Frá því Vörður birti fyrstu umhverfisstefnu sína árið 2012 hefur félagið einsett sér að vera til fyrirmyndar í íslensku atvinnulífi og taka virkan þátt í að efla umhverfismál, félagslega þætti og ábyrga stjórnarhætti. Okkur er jafnframt umhugað að sýna frumkvæði og ábyrgð í þessum málum og höfum sett okkur það markmið að taka þátt í vegferðinni af krafti og stíga ákveðin skref í átt að sjálfbærni. Það er einnig stefna okkar að vinna að heilindum að sjálfbærnimálum sem stuðla að sjálfbærri þróun íslensks samfélags ásamt því að styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Þannig stöndum við vörð um samfélagið,“ segir Guðmundur Jóhann Jónsson framkvæmdastjóri Varðar.

Um hvatningarverðlaunin

Hvatningarverðlaunin eru veitt samhliða birtingu lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki 2020. Dómnefnd vann úr lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki sem sýndu fram á skýra stefnu um samfélagsábyrgð, sjálfbærni, kynjajafnrétti og réttindi starfsfólks. Verðlaunin eru unnin í samstarfi við Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð. Í dómnefnd sátu Sæmundur Sæmundsson, sjálfstætt starfandi, Gréta María Grétarsdóttir, verkfræðingur og Gunnar Sveinn Magnússon sérfræðingur í sjálfbærni.

Deila efni:

Fréttabréf Creditinfo

Fáðu nýjustu fréttir af lausnum og þjónustu Creditinfo í tölvupósti
Frábært! Þú ert núna skráð(ur) í fréttabréfið hjá Creditinfo
Úps, eitthvað fór úrskeiðis. Vinsamlegast reynið aftur með því að endurhlaða síðuna