No items found.

Valka hlaut verðlaun Creditinfo fyrir Framúrskarandi nýsköpun

21.10.2020

Tæknifyrirtækið Valka hf. hlaut hvatningarverðlaun Creditinfo fyrir nýsköpun meðal Framúrskarandi fyrirtækja 2020. Verðlaunin fyrir nýsköpun eru veitt í samstarfi við Icelandic Startups. Markmið viðurkenningarinnar er að vekja athygli á mikilvægi nýsköpunar hjá rótgrónum fyrirtækjum. Við valið er m.a. horft til skráðra einkaleyfa, samstarfs við háskóla og rannsóknarstofnanir og þess hvort fyrirtækið afli útflutningstekna sem byggja á íslensku hugviti.

Þjónusta við sjávarútveg á heimsvísu

Það var mat dómnefndar að Valka sé einstakt dæmi um fyrirtæki sem komið er vel á legg en gefur ekkert eftir með öflugu rannsóknar- og þróunarstarfi sem stuðlar að hugvitsdrifnum hagvexti og skapar fjölda verðmætra starfa. Horft er til ýmissa þátta við mat dómnefndar á borð við nýnæmi, vöxt og útflutningstölur, rannsóknarstyrki, einkaleyfi, og hvernig nýsköpun er almennt háttað í daglegri starfsemi fyrirtækisins.  

Það segir meðal annars í úrskurði dómnefndar að Valka hafi náð að skipa sér í fremstu röð á alþjóðavísu í þjónustu við sjávarútveg. Fyrirtækið nýtir tækniframfarir á sviði vinnslubúnaðar, hugbúnaðar og gervigreindar til að hámarka framleiðslu og nýtingu á sjávarafurðum. Fyrirtækið starfar á alþjóðamarkaði og selur vörur og þjónustu víðsvegar í Evrópu og Bandaríkjunum. Yfir helmingur tekna Völku kemur erlendis frá. Velta fyrirtækisins hefur þrefaldast frá árinu 2017 og var árið 2019 rúmir 3 milljarðar króna. Þessi mikli vöxtur er að stórum hluta drifinn áfram af nýsköpun. Auknu fjármagni hefur verið veitt í rannsóknar og þróunarstarf undanfarin ár og nam hlutfallið um 14% af veltu síðasta rekstrarárs. Bæði hér heima og erlendis hefur Valka unnið náið með háskólum og matvælastofnunum og hlotið ýmsa rannsóknarstyrki s.s. Rannís og Horizon 2020. Valka hefur veðjað á sjálfvirknivæðingu með samþættingu véla og vélmenna við hugbúnaðarlausnir. Fyrirtækið á sjö skráð einkaleyfi og er með fimm alþjóðlegar umsóknir í ferli. Hjá Völku starfa yfir 100 manns, öflugur hópur með menntun á sviði vísinda og iðngreina og rík áhersla lögð á jafnan hlut kynja í stjórnendateymi félagsins.

„Nýsköpun er hjarta fyrirtækisins, frá stofnun þess hefur höfuðáhersla fyrirtækisins verið á vöruþróun og að markaðsetja vörur og kerfi sem skapa aukin verðmæti. Við leggjum áherslu á að vinna náið með okkar viðskiptum við að móta mikilvægustu verkefnin og notum svo nýjustu tækni hverju sinni til að ná fram þeim markmiðum sem við settum okkur. Búnaður Völku hefur breytt fiskiðnaðinum umtalsvert á allra síðustu árum. Það má því segja að Valka stundi umbyltandi nýsköpun. Hæft starfsfólk, trú eigenda á verkefninu og afar náið samstarf við framsæknustu fyrirtækin í greininni eru lykillinn að árangrinum,“ segir Helgi Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Völku.

Um hvatningarverðlaunin

Hvatningarverðlaunin eru veitt samhliða birtingu lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki 2020. Dómnefnd vann úr lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki og sýndu fram á skýra stefnu í nýsköpun í sinni starfsemi. Verðlaunin eru unnin í samstarfi við Icelandic Startups. Í dómnefnd sátu Ragnheiður H. Magnúsdóttir, ráðgjafi í upplýsingatækni, Ólafur Andri Ragnarsson, aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík og Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups.

Deila efni:

Fréttabréf Creditinfo

Fáðu nýjustu fréttir af lausnum og þjónustu Creditinfo í tölvupósti
Frábært! Þú ert núna skráð(ur) í fréttabréfið hjá Creditinfo
Úps, eitthvað fór úrskeiðis. Vinsamlegast reynið aftur með því að endurhlaða síðuna