No items found.

Vanskil hafa aldrei verið minni

20.1.2021

Vanskil einstaklinga og fyrirtækja á Íslandi hafa aldrei verið minni en á árinu 2020. Þetta sýna nýjustu tölur úr vanskilaskrá Creditinfo. Hlutfall fyrirtækja sem voru ný á vanskilaskrá lækkaði úr 4,8% á árinu 2019 í 3,3% á árinu sem var að líða. Á sama tíma fór hlutfall einstaklinga sem fóru inn á vanskilaskrá úr 1,93% í 1,56%. Líklegt þykir að greiðslufrestir frá lánastofnunum og fyrirtækjum í kjölfar COVID-19-faraldursins eigi stóran þátt í þessari þróun.

„Stuttu eftir að COVID-19-faraldurinn fór að láta á sér kræla í íslensku samfélagi gripu bæði stjórnvöld og lánastofnanir til aðgerða til að koma í veg fyrir að einstaklingar og fyrirtæki myndu lenda í fjárhagslegum erfiðleikum á árinu. Flestar lánastofnanir hafa veitt greiðslufresti eða önnur úrræði til einstaklinga og fyrirtækja sem hafa séð fram á tekjumissi vegna faraldursins og það veldur því óhjákvæmilega að færri skráningar verða hjá einstaklingum og fyrirtækjum á vanskilaskrá,“ segir Gunnar Gunnarsson, forstöðumaður Greiningar og ráðgjafar hjá Creditinfo. „Við þetta má bæta að faraldurinn hafði einnig í för með sér breyttar neysluvenjur einstaklinga í skiptum fyrir utanlandsferðir. Þá mátti sjá aukningu í framkvæmdum á heimilum auk þess sem að kortavelta landsmanna jókst á árinu þrátt fyrir ástandið.“

Mótvægisaðgerðir frá hinu opinbera

Í vor tilkynnti ríkisstjórnin áætlanir um svokallaða hlutabótaleið sem gerði fyrirtækjum kleift að minnka starfshlutfall starfsmanna á meðan þeir gátu sótt um styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem samsvaraði skertu starfshlutfalli. Þetta úrræði varð til þess að höggið varð minna en það hefði orðið fyrir fyrirtæki sem sáu mörg hver fram á töluvert tekjutap á árinu. Þessu til viðbótar lækkaði Seðlabanki Íslands meginvexti bankans umtalsvert á árinu með tilheyrandi búbót fyrir fjölskyldur og fyrirtæki. Einnig bauð ríkisstjórnin upp á ríkisábyrgð á hluta viðbótarlána sem lánastofnanir veita fyrirtækjum eða svokölluð brúarlán. Slík lán voru veitt til þeirra fyrirtækja sem sáu fram á verulegt og ófyrirséð tekjutap vegna COVID-19-faraldursins.

„Þessar aðgerðir milduðu það áfall sem varð til skamms tíma á íslenskt efnahagslíf í kjölfar COVID-19-faraldursins. Við þetta má bæta að fyrirtæki hafa í miklum mæli komist til móts við viðskiptavini sína með sambærilegum hætti og lánastofnanir og veitt viðskiptavinum sínum tímabundna greiðslufresti eða breytt kjör á meðan á faraldrinum stendur. Þetta gerir það að verkum að færri skráningar hafa orðið á vanskilaskrá Creditinfo en annars hefðu orðið,“ segir Gunnar. Hann segir þetta ólíkt ástandinu sem ríkti í kjölfar efnahagskreppunnar árið 2008 þar sem vanskil jukust strax eftir fall bankanna. Í núverandi ástandi megi segja sem svo að horfi fram á bjartari tíma um leið og meirihluti þjóðarinnar verði bólusettur og ferðaþjónustan geti náð sér á strik aftur. Í kjölfar bankahrunsins 2008 hafi óvissa hins vegar verið meiri þar sem ekki hafi verið ljóst hversu lengi ástandið myndi vara, rót vandans ekki eins augljós og því erfiðara að veita einstaklingum og fyrirtækjum sértæk úrræði á borð við greiðslufresti.

COVID-váhrifamat

Vorið 2020 varð greinilegt að þar sem ofangreindar aðgerðir kæmu til með að milda áhrif tekjutaps vegna COVID-19 faraldursins myndu hefðbundnir mælikvarðar eins og kröfur í innheimtu, slæm greiðsluhegðun, vanskil og gjaldþrot ekki raungerast eins hratt og annars gæti orðið. Það gerði það að verkum að grípa þurfti til aðgerða til að styðja við lánshæfismat fyrirtækja sem byggir að miklu leyti á upplýsingum um vanskil. Sérfræðingar Creditinfo á Íslandi, Eistlandi, Lettlandi og Tékklandi unnu því að nýjum mælikvarða á óvissu í rekstrarumhverfi fyrirtækja vegna COVID-19 faraldursins sem hlaut nafnið COVID-váhrifamat. Matinu er ætlað að fylla í eyðurnar sem lánshæfismat fyrirtækja skilur eftir með því að flokka fyrirtæki eftir því hversu berskjölduð þau eru fyrir áhrifum COVID-19 faraldursins. Matið hefur hjálpað fjölmörgum viðskiptavinum Creditinfo með að meta áhættu í rekstri en þess má geta að COVID-váhrifamatið er aðgengilegt fyrir alla áskrifendur Creditinfo sem hafa aðgang að Viðskiptasafninu.

Vanskil einstaklinga

Á myndinni hér fyrir neðan sést hvernig vanskilatíðni einstaklinga hefur þróast frá árinu 2017 til ársins 2020 en hún hefur dregist jafnt og þétt saman á þessu tímabili, úr 2,48% einstaklinga á vanskilaskrá árið 2017 í 1,56% einstaklinga á árinu 2020.

Vanskilatíðni einstaklinga frá árinu 2017 - 2020

Vanskil fyrirtækja

Þegar litið er til vanskila fyrirtækja má sjá að hlutfall nýrra fyrirtækja inn á vanskilaskrá lækkaði úr 4,8% árið 2019 í 3,3% árið 2020. Á myndinni hér fyrir neðan sést hvernig þróunin hefur verið frá árinu 2017. Hlutfallið hefur minnkað jafnt og þétt frá árinu 2017 þegar það stóð í kringum 5,9%.

Vanskilatíðni fyrirtækja frá árinu 2017 - 2020

Gunnar segir ljóst að COVID-19-faraldurinn hafi haft óvænt áhrif á íslenskt efnahagslíf og að tölur um þróun vanskila hjá einstaklingum og fyrirtækjum beri þess skýr merki. „Erfitt er að segja til um hver þróunin verður á þessu ári, þegar útlit er fyrir að þjóðin verði að stórum hluta bólusett fyrir lok árs. Ekki er hægt að segja til um það með vissu um hvort vanskil komi til með að aukast verulega, en ólíklegt verður að teljast að þau haldi áfram að dragast saman á árinu.“ Um leið bætir hann við að á meðan fyrirtæki og einstaklingar njóti greiðslufrests hjá lánastofnunum og fyrirtæki haldi að sér höndum við innheimtu krafna séu ekki miklar líkur á því að skráningum á vanskilaskrá fjölgi til skamms tíma.

Deila efni:

Fréttabréf Creditinfo

Fáðu nýjustu fréttir af lausnum og þjónustu Creditinfo í tölvupósti
Frábært! Þú ert núna skráð(ur) í fréttabréfið hjá Creditinfo
Úps, eitthvað fór úrskeiðis. Vinsamlegast reynið aftur með því að endurhlaða síðuna