Loka

Hafa samband

Takk fyrir. Beiðnin er móttekin. Við munum hafa samband innan skamms.
Úps! Eitthvað fór úrskeiðis. Vinsamlegast endurhlaða síðunni og reyna aftur.

Persónuupplýsingar

Meðferð og vinnsla

Creditinfo veit að einstaklingar eru meðvitaðir um vinnslu persónuverndaðra upplýsinga og er annt um eigin persónuvernd. Creditinfo leggur áherslu á að tryggja persónuvernd og öryggi þeirra upplýsinga sem félagið vinnur með. Félagið hefur sett sér persónuverndarstefnu sem tekur til allra persónuupplýsinga sem unnið er með hjá félaginu. Meðferð og vinnsla persónuupplýsinga lýsir stefnu og starfsháttum Creditinfo varðandi söfnun og notkun persónuupplýsinga. Meðferð og vinnsla persónuverndaðra upplýsinga fylgir áframhaldandi ábyrgð og mun Creditinfo uppfæra upplýsingar um meðferð og vinnslu persónuupplýsinga í samræmi við síðari breytingar.

Vinnsla, miðlun og meðferð persónuupplýsinga hjá Creditinfo er í samræmi við gildandi lög og reglur sem varða vinnslu persónuupplýsinga, þ.m.t. reglugerð Evrópuþingsins og Ráðsins (ESB) 2016/679 (GDPR), lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og starfsleyfi Creditinfo frá Persónuvernd sem gefið er út með tilvísun í 15. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Í starfsleyfisskyldu felst m.a. að á starfsleyfishafa hvíla, auk þeirra skyldna sem fram koma í lögum nr. 90/2018, og reglum settum á grundvelli þeirra, þær skyldur er greinir í skilmálum starfsleyfisins, bæði um þá vinnslu sem Creditinfo stendur að sem ábyrgðaraðili og sem vinnsluaðili.

Hvað eru persónuupplýsingar?

Persónuupplýsingar eru hvers kyns upplýsingar um persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling.Einstaklingur telst persónugreinanlegur ef unnt er að persónugreina hann, beint eða óbeint, svo sem með tilvísun í auðkenni eins og nafn, kennitölu, staðsetningargögn, netauðkenni eða einn eða fleiri þætti sem einkenna hann í líkamlegu, lífeðlisfræðilegu, erfðafræðilegu, andlegu, efnalegu, menningarlegu eða félagslegu tilliti. Persónuupplýsingar eru ekki upplýsingar um lögpersónur á borð við fyrirtæki og félög eða nafnlausar upplýsingar sem hafa verið aftengdar persónuauðkennum og því ekki lengur hægt að nota til að tengja við og persónugreina einstaklinginn.Creditinfo vinnur og miðlar persónuupplýsingum en hvorki vinnur með né miðlar viðkvæmum persónuupplýsingum s.s. er varða kynþátt eða þjóðernislegan uppruna, kynhneigð, stjórnmálaskoðanir, trúarbrögð eða heimspekilega sannfæringu, aðild að stéttarfélagi, erfðafræðilegrar upplýsingar, lífkennaupplýsingar og heilsufarsupplýsingar, með þeirri undantekningu að unnið er með upplýsingar um stéttarfélagsaðild starfsmanna félagsins. Creditinfo hvorki miðlar eða vinnur fjárhagsupplýsingar um einstaklinga undir átján ára aldri.

Í hvaða tilgangi vinnur Creditinfo persónuupplýsingar?

Creditinfo vinnur og miðlar upplýsingum í viðskiptalegum tilgangi til áskrifenda að þjónustu félagsins, s.s. í tengslum áhættustýringu, við mat á lánshæfi og vegna innheimtu vanskilakrafna. Tilgangur vinnslu og miðlunar upplýsinga þarf að vera nauðsynlegur í viðskiptalegum tilgangi til að þriðji aðli eða aðilar sem upplýsingum er miðlað til, geti gætt lögmætra hagsmuna sinna. Upplýsingar þurfa að vera nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar og unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og meðferð þeirra þarf að vera í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga. Upplýsingum til áskrifenda er ýmist miðlað á forsendu lögvarðra hagsmuna, upplýsts samþykkis eða heimilda Creditinfo til miðlunar samkvæmt samningum við ábyrðgaraðila um miðlun upplýsinga. Heimildir til vinnslu, miðlunar og notkunar á persónuupplýsingum byggja ýmist á starfsleyfi Creditinfo frá Persónuvernd eða heimild Creditinfo til vinnslu samkvæmt samningum við ábyrgðaraðila. Heimildir til vinnslu fjárhagsupplýsinga þurfa á byggja á lögvörðum hagsmunum ábyrgðaraðila og/eða upplýstu samþykki þess einstaklings sem í hlut á. Uppflettingar og notkun gagna á forsendu upplýsts samþykkis getur ýmist verið undirritað skjal eða rafrænt samþykki. Samþykkið þarf að vera sannarlegt, vistað á öruggum stað og tiltækt, sé þess óskað. Við veitingu samþykkis skal tilgreint sérstaklega til hvaða upplýsinga samþykki tekur og í hvaða tilgangi upplýsingum er miðlað. Samþykki fellur úr gildi, og þar með heimild til vinnslu þeirrar sem samþykki nær til, þegar það er afturkallað eða viðskiptasambandi lýkur. Samþykki þarf að vera hægt að afturkalla hvenær sem er, með jafn einföldum hætti og samþykki er veitt. Samþykki og afturköllun samþykkis þarf að vista í þeim tilgangi að sýna þeim sem veitti samþykki eða óskaði afturköllunar fram á að samþykki eða afturköllun hafi sannanlega verið móttekin og hvenær.

Hverjir hafa aðgang að upplýsingunum?

Áskrifendur sem undirritað hafa áskriftarsamning með ströngum skilyrðum um öflun, notkun og meðferð upplýsinga hafa aðgang að upplýsingakerfum Creditinfo. Nöfn og kennitölur notenda að upplýsingakerfum eru skráðar og vistaðar í þeim tilgangi að tryggja rekjanleika, en er ekki miðlað til þriðja aðila. Persónuupplýsingum er ekki miðlað til þriðja ríkis án þess að fullnægjandi vernd liggi fyrir.

Hvernig eru upplýsingarnar notaðar?

Persónuupplýsingar eru notaðar í tengslum við áhættustýringu, við mat á lánshæfi eða í öðrum viðskiptalegum tilgangi svo og við innheimtu vanskilakrafna. Miðlun upplýsinga getur átt sér stað við leit í upplýsingakerfi eða -skrám, rafræna vöktun, flokkun eða samkeyrslu skráa. Nöfn, kennitölur, netföng og IP tölur notenda að upplýsingakerfum eru skráðar og vistaðar í þeim tilgangi að tryggja rekjanleika uppflettinga, en er ekki miðlað til þriðja aðila.

Hvaða upplýsingum er safnað og hvaðan?

Creditinfo er ýmist ábyrgðaraðili eða sameiginlegur ábyrgðaraðili þeirra persónuupplýsinga sem félagið vinnur og miðlar.
Ábyrgðaraðili: Aðili sem stýrir vinnslu persónuupplýsinga en í því felst að taka ákvörðun um tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. Ábyrgðaraðili ber ábyrgð á að skýr heimild sé fyrir vinnslu persónuupplýsinga, að áhættan við vinnsluna sé metin og við henni brugðist, að innra eftirlit sé viðhaft og að vinnslan sé tilkynnt ef við á.
Vinnsluaðili: Aðili sem vinnur persónuupplýsingar á vegum ábyrgðaraðila og miðlar þeim áfram til notenda. Vinnsla er aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með upplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn.
Sameiginlegur ábyrgðaraðili: Tveir aðilar eða fleiri sem stýra vinnslu persónuupplýsinga en í því felst að taka ákvörðun um tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. Ábyrgðaraðilar bera ábyrgð á að skýr heimild sé fyrir vinnslu persónuupplýsinga, að áhættan við vinnsluna sé metin og við henni brugðist, að innra eftirlit sé viðhaft og að vinnslan sé tilkynnt ef við á.
VOG vanskilaskrá – Skráð vanskil og opinberar gjörðir
Uppruni: Embætti sýslumanna, héraðsdómsstólar, Lögbirtingarblaðið, áskrifendur að þjónustu Creditinfo
Lánshæfismat – Mat á líkum á vanskilum
Uppruni: VOG vanskilaskrá, RSK, Þjóðskrá, hluthafagrunnur Creditinfo
Lánshæfismat með viðbótarupplýsingum – Mat á líkum á vanskilum
Uppruni: VOG vanskilaskrá, RSK, Þjóðskrá, Skuldastöðukerfi, upplýsingar úr kerfum Creditinfo (uppflettingar, vaktanir), greiðsluhegðun
Einstaklingsskýrsla – Skráningar á VOG vanskilaskrá (já/nei), tengd fyrirtæki; í stjórn, framkvæmdastjórn, prókúruhafi, stofnandi, endurskoðandi (fjöldi fyrirtækja), hluthafi (fjöldi fyrirtækja), bein eignatengsl við lögheimili (já/nei)
Uppruni: VOG vanskilaskrá, RSK, hluthafagrunnur, Þjóðskrá
Fyrirtækjaskrá – upplýsingar um stjórnarmenn, framkvæmdastjóra, prókúruhafa, endurskoðendur, skoðunarmenn og stofnendur (nafn kennitala, heimilisfang)
Uppruni: RSK
Fyrirtækjaskrá - Breytingasaga og eldri skráningar – Skráðar upplýsingar hjá fyrirtækjaskrá á tiltekinni dagsetningu eða samkvæmt yfirliti breytinga. Upplýsingar um stjórnarmenn, framkvæmdastjóra, prókúruhafa, endurskoðendur, skoðunarmenn og stofnendur (nafn kennitala, heimilisfang)
Uppruni: RSK
Félagaþátttaka einstaklings – Nöfn tengdra félaga og heiti stöðu (stjórnarmaður, framkvæmdastjórn, prókúruhafi, stofnandi, endurskoðandi)
Uppruni: RSK
Tilkynningar til fyrirtækjaskrár – Afrit tilkynninga (pdf skjal) til fyrirtækjaskrár. Upplýsingar um stjórnarmenn, framkvæmdastjóra, prókúruhafa, endurskoðendur, skoðunarmenn og stofnendur (nafn kennitala). Upplýsingar um stofnendur (nafn, kennitala, hlutdeild)
Uppruni: RSK
Lánshæfisskýrsla – Upplýsingar um stjórnarmenn, framkvæmdastjóra, prókúruhafa, endurskoðendur, skoðunarmenn og stofnendur (nafn kennitala, heimilisfang). Upplýsingar um hluthafa (nafn, kennitala, hlutdeild)
Uppruni: RSK, hluthafagrunnur Creditinfo
Ársreikningar – Upplýsingar um hluthafa samkvæmt afriti (pdf skjal) ársreiknings sem skilað er til RSK (nafn, kennitala, hlutdeild). Upplýsingar um stjórnarmenn, framkvæmdastjórn, endurskoðanda (nafn)
Uppruni: RSK
VSK númer einstaklinga í atvinnurekstri
Uppruni: RSK
Þjóðskrá – Upplýsingar úr Þjóðskrá (nafn, kennitala, heimilisfang)
Uppruni: Þjóðskrá
Þjóðskrá með viðbótarupplýsingum – Upplýsingar úr Þjóðskrá (nafn, kennitala, heimilisfang) ásamt viðbótarupplýsingum (kyn, fjölskyldunúmer, nafn og kennitala maka, hjúskaparstaða)
Uppruni: Þjóðskrá
Hluthafagrunnur – Upplýsingar um hluthafa í fyrirtækjum (nafn, kennitala, hlutdeild)
Uppruni: RSK (ársreikningar og stofngögn), Nasdaq á Íslandi (hluthafalistar), Mitt Creditinfo (innsend gögn frá forsvarsmönnum fyrirtækja)
Fasteignaskrá - Upplýsingar um fasteignir á valið fastanúmer, land-númer eða heimilisfang auk upplýsinga um eigendur samkvæmt gjaldendaskrá Þjóðskrár (nafn,kennitala,eignahluti, kaup- og afhendingardagur)
Uppruni: Þjóðskrá
Fasteignaskrá – Eignaleit - Upplýsingar um fasteignir á valinn einstakling ásamt eignasögu
Uppruni: Þjóðskrá
Ökutækja- og vinnuvélaskrá – Upplýsingar um ökutæki og vinnuvélar á valið númer bifreiðar eða ökutækis auk upplýsing um eiganda og/eða umráðamanns (nafn,kennitala,heimilisfang)
Uppruni: Samgöngustofa, Vinnueftirlit Ríkisins
Ökutækja- og vinnuvélaskrá - Eignaleit – Upplýsingar um ökutæki og vinnuvélar á valinn einstakling ásamt eignasögu
Uppruni: Samgöngustofa, Vinnueftirlit Ríkisins
Veðbönd – Upplýsingar um þinglýstar eignaheimildir; ökutæki, vinnuvélar, fasteignir, skip auk upplýsinga um eiganda (nafn, kennitala)
Uppruni: Þjóðskrá
Greiðslumatskerfi – Greiðslumatskerfið gerir lánveitendum kleift að meta svigrúm viðskiptavina sinna til lántöku. Gögn eins og skuldastaða, vanskil, lánshæfismat og upplýsingar um eignir eru sótt sjálfkrafa og við þau bætast e.a. upplýsingar eins og matsverð fyrirhugaðrar eignar og upphæð láns. Út frá gefnum forsendum reiknar greiðslumatskerfið áætlað ráðstöfunarfé fyrir og eftir lántöku og skilar niðurstöðu um hvort lánaumsækjandi standist greiðslumat.
Uppruni: Upplýsingar úr kerfum Creditinfo ásamt innskráðum gögnum frá lánveitendum
Skuldastöðukerfi – Skuldastöðukerfið sækir upplýsingar um skuldastöðu aðila til banka og fjármálafyrirtækja og birtir í yfirliti. Þegar fyrirspurn er gerð í kerfið eru sóttar upplýsingar um skuldbindingar til allra þátttakenda í kerfinu á sama tíma og niðurstöðurnar teknar saman í aðgengilegt yfirlit.
Uppruni: Upplýsingar úr kerfum þátttakenda
Innheimtukerfi – Innheimtukerfið heldur utan um kröfur í innheimtu frá upphafi til enda. Kerfið býður upp á allar aðgerðir löginnheimtu og heldur utan um útreikninga krafna, s.s. höfuðstóla, kostnað, vexti, innborganir og skilagreinar.
Uppruni: Þjóðskrá og innskráð gögn frá notendum ásamt möguleika á upplýsingum úr kerfum Creditinfo; fyrirtækjaskrá, VOG vanskilaskrá, fasteigna - og/eða ökutækjaskrá)
Tjónagrunnur – Sameiginlegur skráningar- og uppflettigrunnur tryggingafélaga. Í grunninn eru skráðar upplýsingar um tilkynnt tjón til tryggingafélaga.
Uppruni: Upplýsingar úr kerfum þátttakenda
Markhópalistar – Upplýsingar um stjórnarmenn, og framkvæmdastjóra
Uppruni: Fyrirtækjaskrá, heimasíður fyrirtækja, Ja.is
Stjórnmálaleg tengsl – Listi yfir einstaklinga sem teljast hafa stjórnmálaleg tengsl með vísan til laga nr. 140/2018 um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Á listann eru skráðir þeir einstakingar sem eru eða hafa verið háttsettir í opinberri þjónustu ásamt nánustu fjölskyldu þeirra og nánum samstarfsmönnum.
Uppruni: Þjóðskrá Íslands, opinberar vefsíður, fjölmiðlar og hluthafagrunnur Creditinfo
Vera – Upplýsingar um sjálfbærni fyrirtækja. Á meðal upplýsinga eru nöfn og netföng tengiliða fyrirtækja sem fara með sjálfbærnimál.
Uppruni: Forsvarsmenn fyrirtækja eða sá aðili sem fer með málefni sjálfbærni.

Hvenær er upplýsingum eytt?

Persónuupplýsingum í upplýsingakerfum Creditinfo er eytt eða þau gerð ópersónugreinanleg ef ekki eru fyrir hendi lögmætar eða málefnanlegar ástæður fyrir vinnslunni eða varðveislu þeirra, vinnsla þeirra er ekki lengur nauðsynleg í þeim tilgangi sem lá að baki söfnun þeirra, ef samþykkið sem vinnslan byggist á er dregið til baka eða ákvæði starfsleyfis félagsins kveða á um eyðingu. Einstaklingar eiga rétt á að rangar, villandi eða ófullkomnar persónuupplýsingar séu leiðréttar, við þær aukið eða þeim eytt. Upplýsingar um vanskil og opinberar gjörðir eru að hámarki birtar á skrá yfir vanskil í fjögur ár en þeim eytt eða þau gerð ópersónugreinanleg að sjö árum liðnum frá dagsetningu kröfu eða gjörðar, í samræmi við starfsleyfi Creditinfo frá Persónuvernd.Ef ábyrgðaraðili eða annar sem heimild veitir til vinnslu upplýsinga, setur þær kröfur á Creditinfo sem vinnsluaðila að varðveita skuli upplýsingar í tiltekinn tíma þarf félagið að verða við því og eyða upplýsingum að tilskyldum tíma liðnum. Hljóðritanir símtala í aðalnúmer Creditinfo eru vistaðar í þrjá mánuði og eytt að þeim tíma liðnum.

Réttur til andmæla

Réttur til andmælaEinstaklingar hafa rétt til að andmæla vinnslu upplýsinga um vanskil á grundvelli þess að krafa hafi verið greidd í skil eða á forsendu ágreinings um réttmæti kröfu. Andmæli vinnslu á forsendu ágreinings þarf að koma á framfæri við kröfuhafa eða umboðsmanns kröfuhafa og greina frá ástæðu andmælanna. Þetta á þó ekki við í þeim tilfellum þegar skuldin hefur verið staðfest með aðfararhæfum dómi eða aðfararhæfri ákvörðun sýslumanns sem kunngjörð hefur verið í opinberri auglýsingu. Í þeim tilfellum verður skráning ekki afmáð fyrr en samningar nást við kröfuhafa, krafan er greidd eða niðurstöðu réttargjörðar breytt.Einstaklingar hafa einnig rétt til að andmæla vinnslu persónuupplýsinga telji þeir vinnsluna ekki í samræmi við þær reglur, lög og heimildir í starfsleyfi frá Persónuvernd sem félagið starfar eftir. Creditinfo svarar andmælum eigi síðan en að fjórtán dögum liðnum frá móttöku andmæla. Fallist félagið ekki á andmæli er hægt að kæra synjunina til Persónuverndar innan þriggja mánaða sem úrskurðar um hvort vinnsla persónuupplýsinga brjóti í bága við starfsleyfi Creditinfo frá Persónuvernd eða gildandi lög og reglur um persónuvernd. Kvörtun er komið á framfæri til Persónuverndar með því að senda tölvupóst á netfangið: postur@personuvernd.is eða með því að senda bréfapóst til: Persónuvernd, Rauðarárstígur 10, 105 Reykjavík, Ísland. Einnig er að finna eyðulað fyrir kvörtun á vef Persónuverndar.

Réttur til aðgangs að upplýsingum

Einstaklingar hafa rétt til að óska upplýsinga um hvort Creditinfo vinni um þá persónuupplýsingar og rétt til aðgangs að þeim upplýsingum sem félagið um þá vinnur. Réttindi til aðgangs að upplýsingum geta verið háð takmörkunum, s.s. þeim sem lúta að líkanagerð og mikilvægum fjárhags- eða viðskiptahagsmunum. Creditinfo verður almennt við beiðnum er varða ofangreind réttindi að kostnaðarlausu en áskilur sér rétt til innheimtu á kostnaði við afhendingu fleiri en eins afrits af persónuupplýsingum. Þá áskilur Creditinfo sér rétt til að neita að verða við beiðni sem er augljóslega tilefnislaus, óhófleg eða ef beiðni fellur ekki að gildandi lögum og reglum. Creditinfo leitast við að vinna og afhenda upplýsingar eins fljótt og auðið, eða a.m.k. innan 30 daga frá móttöku umsóknar.Creditinfo leggur einnig áherslu á auðvelt aðgengi einstaklinga að þeim upplýsingum sem skáðar eru í gagnaskrár félagsins hverju sinni. Þjónustuvefnum Mitt Creditinfo er ætlað að vera vettvangur einstaklinga til að sækja yfirlit og stöðu í þeim skrám sem félagið vinnur og/eða miðlar. Auk aðgangs að upplýsingum geta einstaklingar komið á framfæri athugasemdum og fyrirspurnum til Creditinfo á einfaldan og öruggan hátt í gegnum þjónustuvefinn. Ef þess er óskað í símtali eða með tölvupósti á almennt netfang félagsins (creditinfo@creditinfo.is) eru allar sömu upplýsingar og yfirlit einnig send í bréfapósti á skráð lögheimili samkvæmt Þjóðskrá.

Réttur til að flytja upplýsingar

Einstaklingur á rétt á að fá persónupplýsingar sem Creditinfo hefur aflað á grundvelli samþykkis einstaklings eða látið Creditinfo í té með öðrum hætti. Upplýsingarnar skulu afhentar á skipulegu, algengu tölvulesanlegu sniði, og eftir atvikum rétt á að Creditinfo flytji slíkar upplýsingar til 3ja aðila sem einstaklingur vísar á ef það er tæknilega framkvæmanlegt.

Mitt Creditinfo

Notendur vefsíðunnar mittcreditinfo.is þurfa að gefa upp netfang og kennitölu. Netföng eru notuð í þeim tilgangi að móttaka og svara fyrirspurnum og athugasemdum sem berast Creditinfo í gegnum vefinn frá notendum. Í einhverjum tilvikum þarf Creditinfo að framsenda athugasemdir frá notendum til kröfueigenda, innheimtufyrirtækis eða þess fyrirtækis sem gerði fyrirspurn í kerfi Creditinfo. Í þeim tilvikum fylgja kennitölur notenda, enda telst það nauðsynlegt til að kanna rétta miðlun upplýsinga um notanda eða réttmæti athugunar á stöðu notanda. Kennitölur notenda eru einnig notaðar til að senda lykilorð í heimabanka. Notendur þurfa ekki að gefa upp símanúmer nema í þeim tilvikum sem óskað er eftir að fá símtali frá þjónustufulltrúa. Allar fyrirspurnir, athugasemdir og samskipti við notendur í gegnum vefinn og netfangið mittcreditinfo@creditinfo.is eru geymdar í fjögur ár. Að fjórum árum liðnum er samskiptum eytt úr kerfum Creditinfo eða þau gerð ópersónugreinanleg. Notendur hafa val um að netföng séu notuð í þeim tilgangi að fá sendar greiðslukvittanir vegna kaupa á vörum á vefnum, fá sendar tilkynningar s.s. vegna uppflettinga eða breytinga á lánshæfismati auk tilkynninga um nýja eða breytta þjónustu Creditinfo. Notendur geta hvenær sem óskað eftir að netföng þeirra séu ekki notuð í þessum tilgangi. Notandi ber ábyrgð á því að breyta skráðu netfangi. Samþykki notendur notkun viðbótarupplýsinga til vinnslu lánshæfismats eru þær upplýsingar notaðar til viðbótar við aðrar við gerð matsins. Samþykkið er hvenær sem er hægt að afturkalla. Þeim upplýsingum sem Creditinfo hefur safnað og notað til vinnslunnar er eytt þegar notandi hefur afturkallað samþykki. Við kaup á vörum á vefnum þurfa notendur að gefa upp greiðslukortaupplýsingar. Í greiðslukortaviðskiptum vistar Creditinfo síðustu fjóra tölustafina í greiðslukortanúmerinu og upplýsingar um gildistíma korts. Einnig er sýndarnúmer korts vistað, sem er öryggisráðstöfun til að minnka hættu á misnotkun kortaupplýsinga. Greiðslukortaupplýsingar eru eingöngu geymdar ef notandi hefur valið þann möguleika í stillingum á siðunni. Notandi getur hvenær sem er óskað eftir því að greiðslukortaupplýsingar verði ekki vistaðar. Creditinfo miðlar ekki netföngum eða símanúmerum notenda til þriðja aðila.

Vinnsla og miðlun ópersónugreinanlega upplýsinga

Ópersónugreinanlegar tölfræðilegar samantektir og aðrar afleiddar upplýsingar sem án alls vafa eru ekki persónugreinanlegar gætu verið notaðar af Creditinfo í viðskiptalegum tilgangi eða til að afhenda þriðja aðila af málaefnalegum og gildum ástæðum, s.s. vegna rannsókna ábyrgra aðila á fjármálahegðun.

Vefkökur (e.cookies)

Creditinfo notar vefkökur (e. cookies) sem vistast í tölvu notandans í þeim tilgangi að greina heimsóknir á vefsíður og hjálpa til við að bæta virkni þeirra. Þessar upplýsingar eru notaðar til þess afla vitneskju um notkun á vefs, s.s. hvaða síður innan vefsins eru skoðaðar og hversu oft. Þar eru engar persónuupplýsingar um notendur geymdar. Creditinfo notar einnig Google Analytics frá Google. Analytics safnar upplýsingum nafnlaust og gefur skýrslur um þróun á vefsvæðum án þess að greint sé frá stökum notendum eða persónuupplýsingum. Á þjónustuvef Mitt Creditinfo geta notendur valið og stillt hvaða vefkökur eru notaðar. Einnig er hægt er að breyta öryggisstillingum á flestum vöfrum þannig að þeir taki ekki á móti kökum. Einnig er hægt að eyða kökum með einföldum hætti. Nánari upplýsingar um hvernig það er gert má finna á heimasíðum flestra vafra. Slíkar breytingar kunna að takmarka aðgengi að tilteknum vefsíðum eða vefsvæðinu í heild sinni.

Öryggi gagna

Creditinfo hefur fengið vottað og staðfest að stjórnkerfi fyrirtækisins fyrir upplýsingaöryggi samræmist alþjóðlega upplýsingaöryggisstaðlinum ISO 27001 sem snýr að stjórnun upplýsingaöryggis og tilgreinir kröfur um að innleiða, viðhalda og bæta stöðugt stjórnunarkerfi um upplýsingaöryggi. Staðallinn felur einnig í sér kröfur um áhættumat og úrbætur vegna upplýsingaöryggis, sem sniðið er að starfsemi Creditinfo.Öryggisnefnd Creditinfo er skipuð tveimur forstöðumönnum auk framkvæmdarstjóra. Persónuverndarfulltrúi félagsins situr sem áheyrnarfulltrúi í nefndinni. Öryggisnefnd hefur m.a. það hlutverk að bregðast við öryggisbrotum í samræmi við ákvæði í lögum um persónuvernd og öryggisstefnu Creditinfo.

Persónuverndarfulltrúi Creditinfo

Persónuverndarfulltrúi Creditinfo er Vilhjálmur Þór Svansson. Persónuverndarfulltrúi hefur það hlutverk að greina og fylgjast með reglufylgni í starfseminni, safna upplýsingum til að greina vinnslustarfsemi, meta áhrif á persónuvernd auk þess að fræða, upplýsa, ráðleggja og koma á framfæri tillögum til ábyrgðaraðila, vinnsluaðila og starfsmanna. Persónuverndarfulltrúi er tengiliður Creditinfo við Persónuvernd. Fyrirspurnum, athugasemdum og ábendingum sem varða persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga hjá Creditinfo er komið á framfæri til persónuverndarfulltrúa með því að senda tölvupóst á netfangið. personuverndarfulltrui@creditinfo.is eða með því að senda bréfapóst til: Creditinfo Lánstraust hf., Borgartúni 25, 105 Reykjavík, Ísland

Fréttabréf Creditinfo

Fáðu nýjustu fréttir af lausnum og þjónustu Creditinfo í tölvupósti
Frábært! Þú ert núna skráð(ur) í fréttabréfið hjá Creditinfo
Úps, eitthvað fór úrskeiðis. Vinsamlegast reynið aftur með því að endurhlaða síðuna